Fulltrúar Fjallabyggðar voru :
Bjarkey Gunnarsdóttir, Egill Rögnvaldsson, Þorbjörn Sigurðsson, Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri og Ólafur Þór Ólafsson skrifstofu- og fjármálastjóri.
Fulltrúar Dalvíkurbyggðar voru:
Kristján E. Hjartarson, Jóhann Ólafsson, Bergþóra Lárusdóttir, Marinó Þorsteinsson, Svanfríður Inga Jónasdóttir bæjarstjóri og Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.
Fundarstaður : Ráðhúsið, Dalvík.
Dagskrá :
1. Skýrsla um úrbætur í Ólafsfjarðarmúla.
Undir þessum dagskrárlið mættu fulltrúar Vegagerðarinnar, Birgir Guðmundsson svæðisstjóri og Gísli Eiríksson yfirmaður jarðgangadeildar, og kynntu fyrir fundarmönnum skýrslu um úrbætur í Ólafsfjarðarmúla og svöruðu fyrirspurnum.
Fram kom að áætlaður kostnaður við ný 8,8 km göng með skálum frá Upsaströnd yfir í Burstabrekku er 11 milljarðar, en breikkun og lagfæring Múlaganga, ásamt snjóflóðavörnum og lagfæringu á vegum kosta 4,6 milljarða.
Talið er að með lagfæringu og breikkun fáist göng sambærileg við Héðinsfjarðargöng að gæðum.
Ekki er talin þörf á loftræstingu í Múlagöng.
Með breikkun milli útskota geta orðið til 8 metra breið göng með 47 m2 þversnið.
Þversnið í Héðinsfjarðargöngum er 50m2
Tímalengd verks yrði 11 til 19 mánuðir eftir því hversu miklar opnanir yrðu á verktíma, með tilheyrandi töfum fyrir fólk og atvinnurekstur. Opna yrði gamla veginn fyrir Múlann.
Farið var yfir áætlanir um snjóflóðavarnir á þessari leið, því snjóflóðahættan veldur ótta, endurbætur á öryggisbúnaði og lýsingu í göngunum.
Minnst var á umferðarstjórnun í tengslum við viðburði og mögulega vakt á daginn yfir sumartímann, sem getur verið hagkvæm lausn.
Í tengslum við gerð samgönguáætlunar er mikilvægt fyrir samvinnu sveitarfélaganna að fá vitneskju um það að eitthvað verði gert í öryggis- og vegamálum á veginum milli sveitarfélagana.
Þeir fundarmenn sem tjáðu sig um valkostina, töldu breikkun Múlaganga vera nær okkur í framkvæmdatíma en ný göng.
2. Almenningssamgöngur í Eyjafirði/skólaakstur Dalvík - Ólafsfjörður.
Fram kom að á vegum Eyþings er verið að skoða gögn sem unnin hafa verið af VSÓ um almenningssamgöngur á Norðaustursvæðinu og tengingu við önnur svæði og aðra ferðamöguleika.
Stefnt er að því að bjóða út akstur í sumar á Eyþingssvæðinu þannig að hægt verði að aka eftir nýju fyrirkomulagi í haust. Nánari útfærslur á leiðarkerfinu verða unnar í samráði við sveitarstjórnir á svæðinu.
Unnið er að því að fyrr verði hægt að bjóða upp á almenningssamgöngur þrisvar á dag milli Akureyrar og Siglufjarðar, án kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin.
Fundarmenn ræddu hvort skólaakstur og almenningssamgöngur gætu gengið saman og hvort sértæka aðgerð þyrfti vegna einnar ferðar á morgnanna aðallega í tengslum við Menntaskólann á Tröllaskaga.
3. Félagsþjónusta sveitarfélaganna og samvinna á þeim vettvangi.
· Sálfræðiþjónusta.
Undir þessum dagskrárlið var haldið áfram með umræðu frá síðasta samráðsfundi um mögulega aðkomu sveitarfélaganna að skipulagðri sálfræðiþjónustu á svæðinu.
· Barnarvendarnefnd.
Fram kom á fundinum að Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra eru með til umfjöllunar samvinnu við Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð um sameiginlega barnaverndarnefnd
· Byggðasamlag um málefni fatlaðra.
Rætt var um stjórnsýslulega aðkomu sveitarfélaganna að byggðasamlagi um málefni fatlaðra.
4. Önnur mál.
Ákveðið var að halda næsta samráðsfund um miðjan maí og komið inn á möguleg fundarefni þess fundar, t.d. sameiginlegt námskeiðshald og fræðsla.
Fundi var slitið kl. 16:30