Bæjarráð Fjallabyggðar

637. fundur 28. janúar 2020 kl. 12:15 - 14:15 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Helga Helgadóttir formaður, D lista
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
Starfsmenn
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Trúnaðarmál - Starfsmannamál

Málsnúmer 2001059Vakta málsnúmer

Niðurstaða færð í trúnaðarbók.

2.Auglýst eftir hugmyndum að áhersluverkefnum

Málsnúmer 1912052Vakta málsnúmer

Á 634. fundi bæjarráðs óskaði ráðið eftir umsögn markaðs- og menningarfulltrúa varðandi áhersluverkefni sem hægt væri að senda inn umsókn fyrir til Eyþings en í auglýsingu kemur fram að áhersluverkefni séu samningsbundin verkefni sem hafa beina skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans og styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Verkefni geta til dæmis verið ráðgjafar- og átaksverkefni á sviði nýsköpunar-, menningar- og umhverfismála.

Lagt fram vinnuskjal markaðs- og menningarfulltrúa þar sem fram kemur að ekkert verkefni er á fjárhagsáætlun Fjallabyggðar sem gæti á þessum tímapunkti flokkast og fallið undir áhersluverkefni og sem hefur beina skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans og styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Undirrituð leggur hins vegar til að sótt verði um styrk vegna verkefnisins „Aðgengi að hringsjánni á Álfhól“, Siglufirði sem er á fjárhagsáætlun ársins 2020 en umsóknarfrestur þar er venjulega í október ár hvert.

Bæjarráð samþykkir að fela markaðs- og menningarfulltrúa að sækja um styrk í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og Uppbyggingasjóð Norðurlands eystra vegna verkefnisins „Aðgengi að hringsjánni á Álfhól, Siglufirði“.

3.Tillaga vegna Almannavarna, bjsv. Strákar

Málsnúmer 2001040Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi björgunarsveitarinnar Stráka dags. 10.01.2020 Þar sem þakkað er fyrir styrk sem sveitarfélagið veitti sveitinni fyrir störf hennar í óveðrinu í desember sl. Þá vill sveitin kanna vilja Fjallabyggðar til samstarfs um uppbyggingu og rekstur á sameiginlegri stjórnstöð vettvangsstjórnar almannavarna Fjallabyggðar og björgunarsveitarinnar ef lög og reglur leyfa.

Þá tilnefnir Björgunarsveitin Strákar Ómar Geirsson og Hans Ragnar Ragnarsson í vettvangsstjórn almannavarna á Siglufirði.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að skoða þann möguleika að stjórnstöð almannavarna verði færð úr Ráðhúsi Fjallabyggðar í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra og í framhaldi af því að meta kostnað sveitarfélagsins við slíka aðgerð.

4.Aðgerðaráætlun vegna óveðurs í Fjallabyggð

Málsnúmer 1912027Vakta málsnúmer

Lagt fram svar Orkusölunnar, dags. 17.01.2019 við fyrirspurn sveitarfélagsins vegna óveðurs á Norðurlandi 10. - 12. desember sl.

Bæjarráð þakkar svarið.

5.Óviðunandi snjómokstur á Hvanneyrarbraut

Málsnúmer 2001052Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Huldu Magnúsdóttur og Sigurðar Sigurjónssonar dags. 17.01.2020 er varðar óviðunandi snjómokstur á Hvanneyrarbraut og öryggi gangandi vegfarenda. Óskað er eftir því að sveitarfélagið hafi frumkvæði að því við Vegagerðina að verktaki á hennar vegum sem sinnir mokstri á þjóðvegi í þéttbýli fjarlægi snjó sem safnast upp á gangstéttir þegar mokað er.

Bæjarráð þakkar ábendinguna og samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að koma málinu í farveg hjá Vegagerðinni.
Bæjarráð vill ennfremur koma því á framfæri að sveitarfélagið hefur ítrekað, undanfarin ár gert athugasemdir við Vegagerðina vegna snjómoksturs á þjóðvegi í þéttbýli svo og hefur ítrekað verið haft samband við Vegagerðina frá því í nóvember á síðasta ári vegna ljóslausra ljósastaura í þeirra eigu og umsjá við þjóðveg í og við þéttbýli. Einnig er hafin vinna hjá sveitarfélaginu sem miðar að því að auka öryggi gangandi vegfaranda.

6.Breytingar á gjaldskrá Landskerfis bókasafna hf á árinu 2020

Málsnúmer 2001054Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Sveinbjargar Sveinsdóttur fh. Landskerfis bókasafna hf., dags. 30.12.2019 og varðar breytingar á gjaldskrá Landskerfis bókasafna hf á árinu 2020 en þá munu greiðslur sveitarfélagasafna hækka um 7,6% vegna íbúafjölgunar sl. 3 ár. Ekki verður um vísitöluhækkun að ræða á árinu. Þar sem greiðslur ríkissafna hafa ekki hækkað til samræmis við greiðslur sveitarfélagasafna verður áfram leitað leiða til að leiðrétta þann mun til framtíðar.

7.Beiðni um leyfi til umferðartakmarkana á götum Ólafsfjarðar

Málsnúmer 2001066Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Kristjáns Haukssonar fh. Skíðafélags Ólafsfjarðar, dags. 24.01.2020 þar sem óskað er eftir leyfi til umferðartakmarkana á götum Ólafsfjarðar samkv. meðfylgjandi teikningu vegna Fjarðargöngunnar sem fram fer 8. febrúar í Ólafsfirði, götur yrðu þrengdar föstudaginn 7.febrúar og hreinsaðar af snjó að keppni lokinni.

Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti að heimila umferðartakmarkanir á götum í Ólafsfirði samkvæmt meðfylgjandi teikningu en bendir á að lokanir eða umferðartakmarkanir á þjóðvegi í þéttbýli þarf að bera undir Vegagerðina.

Bæjarráð felur deildarstjóra tæknideildar að vinna málið áfram í samráði við Skíðafélag Ólafsfjarðar.

8.Viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka og stefna sambandsins um samfélagslega ábyrgð

Málsnúmer 2001055Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 17.01.2020 er varðar Viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka og Stefnu sambandsins um samfélagslega ábyrgð

9.Boðun XXXV. landsþings sambandsins

Málsnúmer 2001060Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Sambands íslenskra sveitarfélag, dags. 21.01.2020. Samkvæmt 7. gr. samþykkta Sambands íslenskra sveitarfélaga eru landsþingsfulltrúar sveitarfélaganna, formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtaka sveitarfélaga og framkvæmdastjórar sveitarfélaga, þ.e. sveitar- og bæjarstjórar, hér með boðaðir til XXXV. landsþings sambandsins fimmtudaginn 26. mars nk.

Landsþingið verður að þessu sinni haldið á Grand hóteli í Reykjavík og hefst það kl. 10:30 að morgni og stefnt er að því að þingstörfum ljúki um kl. 15:45 síðdegis. Að þinginu loknu hefst aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. á sama stað kl. 16:00.

10.Auglýsing um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2019/2020

Málsnúmer 1910152Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Sverris Ólasonar dags. 27. janúar 2020 varðandi byggðakvóta. Þar er farið fram á að þak á úthlutun verði endurskoðað og lagfært.

Einnig lagt fram erindi frá Reyni Karlssyni dags. 28. janúar 2020 varðandi byggðakvóta þar sem hann skorar á bæjarráð að setja hámark á einstaka báta t.d. 25-30 tonn, þannig að fiskvinnsla og útgerð smábáta verði efld í stað þess að byggðakvótinn verði færður að langmestu leyti til eins af kvótahæsta fyrirtækis landsins.

Einnig lagt fram erindi frá Sverri Björnssyni ehf. vegna byggðakvóta. Þar sem farið er fram á að viðauki við breytingarnar sem bæjarstjórn samþykkti í síðustu viku til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis verði samþykktur þar sem hámark verði sett á úthlutun byggðakvóta. Sjá fylgiskjal.

Á 634. fundi bæjarráðs þann 7. janúar sl. var eftirfarandi bókað :

Lagt fram erindi frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dags. 30.12.2019 er varðar úthlutun byggðakvóta. Samkvæmt 4 gr. reglugerð nr. 675/2009, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2019/2020 falla 128 þorskígildislestir til Ólafsfjarðar og 144 þorskígildislestir til Siglufjarðar.

Vilji sveitarstjórn leggja til við ráðuneytið að sett verði sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins eða einstakra byggðarlaga skal hún skila inn rökstuddum tillögum sínum til ráðuneytisins eigi síðar en 27. janúar 2020.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir að smábátasjómenn og vinnsluaðilar í Ólafsfirði tilnefni sitthvorn aðilann og að smábátasjómenn og vinnsluaðilar á Siglufirði tilnefni sitthvorn aðilann til að koma með tillögur til bæjarráðs að sérstökum skilyrðum að úthlutun sem rúmast innan gildandi reglugerðar.

Sendur var tölvupóstur þann 9. janúar sl. til útgerðar- og vinnsluaðila þar sem óskað var eftir tillögum til bæjarráðs. Sjá fylgiskjal.
Þar sem engin svör bárust var sendur ítrekunartölvupóstur þann 16. janúar sl. þar sem ítrekað var efni fyrri tölvupósts og skilafrestur tilgreindur. Sjá fylgiskjal.

Reynir Karlsson sendir tölvupóst þann 16. janúar og tilnefnir Sverrir Ólason fyrir hönd sjómanna og Sirrý Káradóttir fyrir fiskverkenda á Siglufirði. Þessi tilnefning kom frá Reyni Karlssyni en engar tillögur bárust frá þessum aðilum.

Þann 16. janúar barst óformleg tillaga frá Ólafi Marteinssyni fyrir hönd Ramma hf. í framhaldi af fyrirspurn hans vegna tölvupósts til deildarstjóra stjórnsýslu og fjármála.
Sjá fylgigagn.

Þann 20. janúar barst tillaga frá fiskverkendum í Ólafsfirði. Sjá fylgiskjal.

Bæjarráð ítrekar að sendur var út tölvupóstur og hann ítrekaður þar sem óskað var eftir rökstuddum tillögum vegna sérreglna frá útgerðar- og vinnsluaðilum á Siglufirði og í Ólafsfirði.

Einungis bárust tillögur að sérreglum frá Ramma hf og vinnsluaðilum í Ólafsfirði fyrir tilsettan tíma. Bæjarstjórn samþykkti tillögu að sérreglum á fundi sínum 22. janúar sl. en frestur til að senda inn tillögur frá sveitarfélögum rann út 27. janúar sl.

Bæjarráð bendir á að samkvæmt upplýsingum frá Atvinnuvega- og nýsköpunaráðuneyti er hægt að senda inn athugasemdir til ráðuneytisins í viku eftir að frétt um úthlutun byggðakvóta hefur verið birt á vef ráðuneytisins.

Bæjarráð hvetur þá sem eru ósáttir við tillögur sveitarfélagsins að sérstökum skilyrðum til úthlutunar á byggðakvóta að senda inn athugasemdir til ráðuneytisins.

Bæjarráð og bæjarstjórn hafa undanfarin ár leitast við í samráði við útgerðar- og vinnsluaðila að óska eftir sérreglum varðandi úthlutuðum byggðakvóta með það að markmiði að byggðakvóti veiddist. Þrátt fyrir mismunandi áherslur ár frá ári og sjónarmið sem sett hafa verið fram í umsóknum til ráðuneytisins hefur þetta markmið ekki náðst og byggðakjarnarnir brunnið inni með töluverð verðmæti. Það var því ákvörðun bæjarráðs og bæjarstjórnar að láta reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020 standa óbreytta að öðru leyti en því að bátum úr sveitarfélaginu er gert kleift að landa byggðakvóta í vinnslu hvort sem er á Siglufirði eða í Ólafsfirði.

Fundi slitið - kl. 14:15.