Undirskriftarlisti vegna tjaldsvæða á miðbæjarsvæði á Siglufirði

Málsnúmer 1110027

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 231. fundur - 11.10.2011

Lagður fram undirskriftarlisti er varðar staðsetningu húsbíla og tjaldhýsa í miðbæ Siglufjarðar og er m.a. bent á gamla fótboltavöllinn sem kjörstað fyrir ferðamenn.
Lögð er áhersla á að laga þarf allt umhverfi á þeim stað til að sjá þetta verða að veruleika.

Bæjarráð tekur vel í fram komnar ábendingar og felur tæknideild að taka þær saman sem fram hafa komið um umrætt svæði.

Bæjarráð vill auk þess benda á að verið er að skoða hugmyndir um breytingar á miðbæjarsvæðið vegna framkominna tillagna og/eða hugmynda Rauðku ehf um að fjarlægja húsnæði Egilssíldar.

Bæjarráð telur rétt að kalla hagsmunaaðila saman til fundar þegar búið er að afla umræddra gagna.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 123. fundur - 26.10.2011

Undirskriftarlisti hefur borist frá ferðaþjónustu aðilum á Siglufirði þar sem óskað er eftir að takmarka staðsetningu húsbíla á miðbæjarsvæðinu yfir há ferðamannatímann og er bent á að nýta megi "gamla fótboltavöllinn" fyrir húsbíla.  Einnig er bent á að ástæða sé til að fegra núverandi húsbílastæði, gera þar snotran almenningsgarð sem tengdi Síldarminjasafnið, höfnina, torgið og Aðalgötuna.

Undirrituð óska einnig eftir að bæjaryfirvöld efni til opins fundar með hagsmunaaðilum og áhugasömum bæjarbúum um þessi brýnu skipulagsmál.

Nefndin vísar í bókun 231. fundar bæjarráðs, mál 5, og óskar eftir að verki við öflun gagna verði hraðað einsog kostur er.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 240. fundur - 13.12.2011

Lagðar fram tillögur og ábendingar um framkvæmdir við gamla fótboltavöllinn.
Tæknideild hefur tekið þær saman, að ósk bæjarráðs, í framhaldi af umræðu um undirskriftarlista er varðar óheppilega staðsetningu húsbýla og tjaldhýsa í miðbæ Siglufjarðar.

Bæjarráð mun boða aðila málsins, þ.e. þeirra sem skrifa undir listann, til fundar í janúar næst komandi.

Bæjarráð leggur áherslu á að neðanritað verði skoðað sérstaklega á þeim fundi:

1. Svæði norðan við Síldarminjasafnið og að miðbæ Siglufjarðar vestan megin vegar verði lokað fyrir staðsetningu húsbíla og tjaldhýsa vegna slysahættu.
2. Svæði vestan við Rauðku ehf. verði einungis notað sem tjaldsvæði.

3. Óskað verði eftir heimild Ramma ehf. til að nýta lóð þeirra í sumar undir húsbíla.

4. Óska eftir tillögu að framtíðarlausn á lagfæringum og framkvæmdum við gamla fótboltavallarsvæðið.

 

Bæjarráð telur rétt að bæjarstjóri og deildarstjóri tæknideildar boði til fundarins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 257. fundur - 15.05.2012

Vegna framkominna óska felur bæjarráð bæjarstjóra að kalla saman þá aðila sem skrifuðu undir ósk um fund er varðar framtíðarskipulag á tjaldsvæðum bæjarbúa.

Bæjarráð leggur áherslu á þau svæði sem eru tiltæk, en felur tæknideild að loka svæðum vestan Snorrabrautar og færa tengla á önnur svæði.