Uppfærð frétt: Úrhelli á Tröllaskaga og dæla í fráveitukerfi biluð á Siglufirði

Nú er úrhellis rigning á Tröllaskaga líkt og spár gerðu ráð fyrir. Því miður bilaði dæla í fráveitukerfinu á Siglufirði í nótt. Unnið er að viðgerðum. Vegna þessarar gríðarlega miklu úrkomu hefur því miður flætt inn í nokkur hús á Eyrinni. Samkvæmt Veðurstofu Íslands þá hefur úrkoma sl. 24 tíma mælst 119 mm á Siglufirði og 97 mm á Ólafsfirði. Ekki er reiknað með að dragi úr úrkomu fyrr en kl. 18 í dag.

Tvær dælubifreiðar Slökkviliðs Fjallabyggðar eru að dæla vatni upp úr fráveitukerfinu ásamt því sem allar lausar dælur eru notaðar. Einnig eru komnir tveir dælubílar frá Akureyri og þriðji á leiðinni. Þá mun berast meiri aðstoð bæði frá Akureyri og Dalvík á næstunni. Einnig eru byrjaðir að fyllast brunnar við Eyrarflöt syðst í bænum. Þar eru dælur í fráveitukerfinu sem því miður hafa ekki undan þessu mikla vatnsmagni. 

Eigendur húsa á Eyrinni eru beðnir að huga að kjöllurum í húsum sínum .