Spennandi tækifæri fyrir söfn, hönnuði og handverkshús á Norðurlandi

Kynningarfundur um safnaslóð og hönnunar-og handverksslóð á Norðurlandi

Þriðjudaginn 17. apríl kl. 18:00 verður Creative Momentum með kynningar- og umræðufund í Norðurslóðasetrinu á Akureyri á Iceland Creative Trails.

Iceland Creative Trails er snjallsímaforrit (app) sem þróað er af verkefninu Creative Momentum og miðar að því að koma söfnum og fyrirtækjum innan skapandi greina á Norðurlandi á framfæri til ferðamanna. Snjallsímaforritið inniheldur annars vegar safnaslóð og hins vegar hönnunar- og handverksslóð og þess má geta að nú þegar hafa 10 hönnuðir og handverkshús og 7 söfn á Norðurlandi eystra skráð sig inn á appið.

Iceland Creative Trails snjallsímaforritið verður auglýst í gegnum bæklinga sem dreifðir verða á öll söfn, handverkshús og upplýsingamiðstöðvar á svæðinu. Eins verður appið markaðssett í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands á nordurland.is/northiceland.is og auglýsinga- og markaðsstofuna Tjarnargatan en það fyrirtæki hefur unnið til margra verðlauna fyrir auglýsinga- og markaðsherferðir.

Creative Momentum, sem styrkt er af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins, greiðir allan kostnað við gerð appsins. Appið býður upp á marga möguleika til kynningar á menningu á Norðurlandi, t.a.m. Safnaslóð á Akureyri, Safnaslóð frá Skagafirði til Siglufjarðar, Safnaslóð í Þingeyjarsýslu og hönnunarslóðar.

Okkar markmið er að öll söfn, hönnuðir og handverkshús á Norðurlandi verði þátttakendur í appinu og vonumst við til að sjá sem flest ykkar á kynningar- og umræðufundinum þriðjudaginn 17. apríl kl. 18 í Norðurslóðasetrinu á Akureyri.

Boðið verður upp á súpu, brauð og kaffi ykkur að kostnaðarlausu.

Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að tilkynna komu sína fyrir miðvikudaginn, mánudaginn 16. apríl 2018 á netfangið vigdis@eything.is

Kynntu þér málið á vefsíðu Creative Momentum www.mycreativeedge.eu