Sjómannadagshelgin

Sjómannafélag Ólafsfjarðar stendur fyrir glæsilegri dagskrá um næstu helgi. Meðal þess sem er boðið uppá eru leiktæki, frítt í bíó fyrir börn og unglinga, söngvarana Magnús Þór, Siggu Beinteins og Söngvaborg auk leikarans Björgvins Frans. Dagskráin hefst strax á föstudegi og stendur fram á sunnudagskvöld. Magnús Þór Sigmundsson heldur tónleika á föstudagskvöldið auk þess sem börnum og unglingum verður boðið frítt í bíó.
Á laugardeginum verður svokallaður sjómannaslagur á golfvelli Ólafsfirðinga, dorgveiðikeppni fyrir krakkana við höfnina og hinn hefðbundni kappróður í höfninni. Í sundlauginni verður koddaslagur, björgunarsundkeppni o.fl.. Þá verður boðið upp á siglingu með Sigurbjörginni ÓF 1 og grillveislu á eftir. Um kvöldið verða tónleikar með sjómannahljómsveitinni Roðlaust og beinlaust, Sniglabandinu og fleirum. 
Á sjálfan sjómannadaginn byrjar dagskráin með skrúðgöngu og sjómannamessu; Björgunarsýningu frá þyrlu Landhelgisgæslunnar, fjölskylduskemmtun þar sem fram koma m.a. Björgvin Frans, félagar í Söngvaborg, Masi og félagar, Sigga Beinteins og tónlistarfólk frá Ólafsfirði. Leiktæki verða í gangi fyrir unga fólkið og slysavarnarfélagskonur selja kaffi í Sandhóli..

Hátíðinni lýkur svo með árshátíð sjómanna í Tjarnarborg með hátíðarkvöldverði og fjölbreyttri skemmtidagskrá sem endar með dansleik þar sem hljómsveit Siggu Beinteins heldur uppi fjöri fram á nótt.

 

Dagskrá helgarinnar  

Það vakti athygli í fyrra þegar engin formlega dagskrá var á sjómannadaginn á Akureyri eða á Dalvík. Sjómannafélag Ólafsfjarðar hélt hins vegar uppi merkjum sjómanna við Eyjafjörðinn með glæsilegri dagskrá. Ekki lítur út fyrir að mikið verði um dýrðir á sjómannadaginn á Dalvík eða Akureyri þetta árið. Undirbúningur fyrir daginn er hins vegar komið á fullt  í Ólafsfirði.