Miðaldasteming mun ríkja á Gásum helgina 19. og 20.
júlí milli kl 11 og 17. Á Laugardeginum 19. Júlí kl 12:30 mun Svanfríður I. Jónasdóttir,
bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar, bregða sér i gervi héraðshöfðingja og setja
kauptíðina á Gásum að fornum sið og sönghópurinn Hymnodia syngur lög frá
miðöldum.
Að því loknu gefst gestum miðaldadaganna kostur á því að upplifa
starfshætti og menningu síðmiðalda.
Kaupmenn og
handverksfólk, íklætt miðaldaklæðaði, mun vinna að leður- og vattarsaumi,
málmsteypun, jurtalitun, reipisgerð og spjaldvefnaði. Miðaldasöngur að hætti
sönghópsins Hymnodiu mun hljóma um kaupstaðinn ásamt hamarshöggum eldsmiðsins og
brennisteinn úr Námafjalli verður hreinsaður. Völva spáir í rúnir fyrir þá sem
skyggnast vilja inní framtíðina og börn á öllum aldri geta reynt sig við
bogfimi og steinakast. Í fyrsta skipti svo vitað sé í 800 ár verður leikinn
knattleikur eins og hinir fornu kappar og helgjarmenni léku á sínum tíma.
Miðaldamenn munu sýna réttu handtökin en áhugasömum gestum gefinn kostur að
taka þátt og sýna hvað í þeim býr. Örleikþátturinn Munkar og Mjöður, sem
lauslega er byggður á viðburðum og fólki sem nefnt er í hinum fornu ritum,
verður frumsýndur á laugardeginum og leikinn tvisvar hvorn dag. Kaupmennirnir
og handverksfólkið kemur að sjálfsögðu hlaðið vörum í kaupstaðinn og því
viðbúið að perlur, gler, skart, trésverð, skeiðar, litað band og fleiri
skemmtilegir hlutir ættaðir frá miðöldum skipti um eigendur. Greiðslukort
tíðkuðust vitaskuld ekki á miðöldum og því eru gestir beðnir um að hafa með sér
reiðufé (vöruskipti því miður ekki möguleg) hyggist þeir fara vörum hlaðnir frá
Gásum.
Friðrik V mun, í
samvinnu við Norðlenska, elda súpu í miðaldastíl sem verður seld gegn vægu
gjaldi til styrktar áframhaldandi lifandi miðlunar á Gásum. Auk þess verður
boðið uppá leiðsögn báða dagana um þennan merka sögustað.
Aðgangseyrir
er 1000 kr. á fullorðinn, 13 ára og yngri borga 250 kr en fyrir þá sem eru
minni en miðaldasverð er enginn aðgangseyrir.
Dagskrá
markaðarins í heild sinni má finna á www.gasir.is