Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra nýsköpunar, ásamt styrkhöfum Fléttunnar árið 2024
Mynd: Stjórnarráð Íslands
Tíu íslensk nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðlar hljóta alls 12 styrki úr Fléttunni í ár. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti niðurstöður Fléttunnar árið 2024 við hátíðlega athöfn á Hrafnistu í dag. Þetta er í þriðja sinn sem styrkir eru veittir úr Fléttunni, en tilgangur styrkjanna er að styðja við innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðiskerfinu. Í ár verður um 96 milljónum króna dreift til þessara fyrirtækja í þeim tilgangi að innleiða nýja tækni og lausnir í heilbrigðisþjónustu.
Með Fléttunni gefst heilbrigðisstofnunum um allt land tækifæri til að innleiða og nýta áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka hagkvæmni og skilvirkni kerfisins. Stuðningurinn er háður því skilyrði að nýsköpunarfyrirtækin eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem skuldbinda sig til að innleiða nýsköpun fyrirtækisins. Fléttan er því brú á milli einkaframtaksins og heilbrigðiskerfisins.
Fyrirtækið Memaxi, Hátindur 60+ og HSN-Fjallabyggð sóttu um styrk fyrir verkefnið: Skjáheimsóknir í dreifbýli sem framtíðarlausn í öldrunarþjónustu og hlaut verkefnið 7.500.000 kr. stryk.
Alls bárust 44 umsóknir um styrki en opnað var fyrir umsóknir í apríl. Fagráð skipað af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagði mat á umsóknir og hefur ráðherra samþykkt tillögur þess.
Verkefni sem hlutu styrk árið 2024:
- Hrafnista - Smáforritið Iðunn
- Leviosa - Innleiðing Leviosa í GynaMEDICA
- Memaxi - Hátindur 60+: Skjáheimsóknir í dreifbýli sem framtíðarlausn í öldrunarþjónustu
- Grund - Innleiðing sjúkraskrársamþættrar skráningar og upplýsingamiðlunarsnjalllasna fyrir öldrunarþjónustu
- Anna Birna Almarsdóttir - Vitundarvakning og valdefling eldra fólks um notkun á svefnlyfjum og róandi lyfjum
- Heilsugerðin/Erla Gerður Sveinsdóttir - Innleiðing á rafrænum námskeiðum við offitumeðferð hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og Sjúkrahúsinu á Akureyri
- Skræða - Innleiðing sjúkrasrkársamþætts lyfjaávísunar- og lyfjaskráningarhugbúnaðar hjá SÁÁ-sjúkrastofnunum
- Heilsugæsla Reykjavíkur - Innleiðing hugbúnaðarlausna Prescriby
- Miðeind - Aukin skilvirkni Miðstöðvar um sjákraskrárritun með hjálp gervigreindar
- Miðeind - Bætt þjónusta með upplýsingaleit og spurningasvörun
- Medvit Health - Nýrnavernd: samvinnukerfi fyrir meðhöndlun nýrnasjúkdóma
Fréttin og meðfylgjandi mynd er af heimsíðu Stjórnarráðs Íslands.