Byggðastofnun skoðar veikleika og styrkleika Fjallabyggðar

Eitt af verkefnum sem tilgreind eru í byggðaáætlun 2006-2009 nefnist „Athugun á stöðu byggðarlaga sem búa við viðvarandi fólksfækkun“. Þar segir m.a.: „Gerð verður athugun á stöðu byggðarlaga sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun. Styrkleikar þeirra og veikleikar verða metnir og greindir möguleikar til eflingar byggðarlaganna.“ Fjallabyggða var eitt þeirra byggðalaga sem skoðaða var.

Byggðastofnun bar ábyrgð á framkvæmd verkefnisins og vann það í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og Háskóla Íslands.

„Viðvarandi fólksfækkun“ var skoðuð á 10 ára tímabili, 1996-2006 og miðað við 15% fækkun íbúa eða meira. Undir þessa skilgreiningu féllu 22 sveitarfélög víðsvegar um landið, flest þó á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra. Atvinnuþróunarfélögin unnu stöðumat á viðkomandi svæðum, út frá völdum þáttum, s.s. atvinnu, þjónustu, menntun o.fl. Landfræðiskor Háskóla Íslands gerði þjónustugreiningu svæðanna fyrir Byggðastofnun og gaf út skýrslu sem nefnist „Búseta og þjónusta“, sem kynnt er samhliða skýrslu Byggðastofnunar á heimasíðu stofnunarinnar. Starfsmenn þróunarsviðs heimsóttu sveitarfélögin 22 og rætt var við sveitarstjórnarmenn um stöðu byggðarlaganna og framtíðarhorfur. Í skýrslunni er einnig að finna hugmyndir og tillögur um aðgerðir í byggðamálum og kafla um nokkrar byggðaaðgerðir í Noregi og á Íslandi.
Hægt er að skoða kaflann um Fjallabyggð hér.