Berjadagar í Ólafsfirði

Elfa Rún
Elfa Rún
Tónlistarhátíðin Berjadagar í Ólafsfirði verður haldin í tíunda sinn dagana 15. til 17. ágúst næstkomandi.

á þessum tíu árum hefur hróður hennar og orðspor farið vaxandi og helstu tónlistarmenn landsins hafa léð henni krafta sína ásamt vel völdum erlendum gestum. Er svo komið að færri komast að en vilja. Á Berjadögum er flutt aðgengileg kammertónlist auk þess sem gestir úr öðrum listgreinum taka þátt. Einkunnarorð Berjadaga eru nú eins og áður "listsköpun og náttúra" og markmið hátíðarinnar er að gestir geti þar bæði notið fagurra lista og jafnframt stórbrotinnar náttúru byggðarlagsins, en Tröllaskaginn skartar um þetta leiti sínu fegursta.

 

Hátíðin á síðasta ári fór fram helgina 17. til 19. ágúst. Húsfyllir var á nær öllum tónleikum hátíðarinnar og gestir komu víða að af landinu, jafnt úr byggðarlaginu og nærsveitum sem austan af landi og frá suðvesturhorninu.

 

Undirbúningur undir afnmælishátíðina er nú í fullum gangi. Á upphafskvöldi verða fluttar Árstíðirnar eftir Vivaldi þar sem einleikari á fiðlu er Elfa Rún Kristinsdóttir sigurvegari í Bach keppninni í Leipzig fyrir tveimur árum. Kammersveit  Berjadaga leikur með henni á þessum tónleikum.  Á laugardeginum verður opnuð sýning í Listhúsi í Fjallabyggð þar sem málarinn Eggert Pétursson sýnir uppskeru sumarsins. Tónleikar með fornri tónlist  Spilmanna Ríkínís verða í gömlu kirkjunni á Kvíabekk klukkann 14:00 og um kvöldið verða kammertónleikar í Ólafsfjarðarkirkju þar sem Ísafoldarkvintettinn flytur rómaðan strengjakvintett Dvoráks. Á sunnudeginum leika þau Kolbeinn Bjarnason og Guðrún Óskarsdóttir á flautu og semball á pöróttum tónleikum í Ólafsfjarðarkirkju og hátíðin endar síðan með pompi og prakt á sunnudagskvöldinu í Tjarnarborg.

 

Berjadagar 2008

í 10. sinn

Tónlistarhátíð í Ólafsfirði

15.-17. ágúst.

 

Föstudagskvöld 15. ágúst

 

Hátíðartónleikar í tilefni 10 ára afmælis Berjadaga

í Tjarnarborg klukkan 20:30.

Strengjasveit Beradaga flytur Árstíðir Vivaldis ásamt Elfu Rún Kristinsdóttur fiðluleikara. Guðmundur Ólafsson les sonnettur Árstíðanna. 

 

Laugardagur 16. ágúst

 

Melódía

Kvíabekkjarkirkja klukkan 14:00.

Spilmenn Ríkínís flytja veraldlegu lögin úr  Melódía handritinu við undirleik hljóðfæra sem notuð voru hér á landi á 17. öld, s.s. lýru, gígju, langspils, hörpu, symfóns o. fl.

 

*

Flóra Íslands

Eggerts Pétursson listmálari sýnir í Listhúsi í Fjallabyggð kl: 16:00.

Myndir og skissur frá dvöl í Skagafirði í júlímánuði.

 

*

Kvöld í Ólafsfjarðarkirkju

Ísafoldarkvintettinn og gestir hans leika verk eftir Dvorák og Handel.

 

Sunnudagur 17. ágúst

 

Pörótt

tónleikar Kolbeins Bjarnasonar og Guðrúnar Óskarsdóttur

í Ólafsfjarðarkirkju klukkan 14:00.

*

Berjablátt afmæliskvöld

í Tjarnarborg klukkan 20:30

þátttakendur hátíðarinnar á léttu nótunum.

 

Listamenn á Berjadögum árið 2008 eru meðal annarra:

Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari, Kolbeinn Bjarnason flautuleikari, Guðrún Óskarsdóttir semballeikari, Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari, Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari, Hildigunnur Halldórsdóttir fiðluleikari, Eygló Dóra Davíðsdóttir fiðluleikari,   Lilja Hjaltadóttir fiðluleikari, Halla Steinunn Stefánsdóttir sellóleikari, Helga Þóra Björgvinsdóttir fiðluleikari, Kristján Orri Sigurleifsson kontrabassaleikari, Steinunn Stefánsdóttir sellóleikari, Þórarinn Már Baldursson lágfiðluleikari, Eggert Pétursson myndlistarmaður, Spilmenn Ríkínís, Guðmundur Ólafsson leikari, Sigursveinn Magnússon tónlistarmaður, Sigrún Valgerður Gestsdóttir söngkona, Marta Guðrún Halldórsdóttir söngkona og Örn Magnússon sem jafnframt er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar.