Athugasemd vegna fréttar sem birtist í Morgunblaðinu í gær 12. apríl og bar yfirskriftina "Íbúar kjósa um akstur skólabarna".
Í fréttinni er staðreyndarvilla sem ástæða er til að leiðrétta.
Haft var eftir íbúa í fréttinni að foreldrar séu farnir að mæta of seint í vinnu þar sem skólarúta fari af stað kl. 8:30. Þessi fullyrðing er ekki rétt.
Hið rétta er að skólarúta fer með eldri nemendur frá Siglufirði kl. 7:40 til Ólafsfjarðar þar sem skólastarf hefst kl. 8:10 og skólarúta fer frá Ólafsfirði með yngri nemendur kl. 8:05. Þar að auki er boðið upp á gæslu í skólahúsinu á Siglufirði frá kl. 8:00 þar til skólastarf yngri barna hefst kl. 8:30 og í Ólafsfirði geta nemendur mætt fyrir kl. 8:00 en rútan er að renna í hlað með eldri nemendur um kl. 8:00.
Athugasemd hefur verið gerð við ritstjórn Morgunblaðsins og óskað eftir að hún verði birt á vefnum en því miður hefur ritstjórnin ekki séð sér fært að gera það enn sem komið er.