Afsökunarbeiðni vegna mistaka við vinnslu og flutning menningarannáls ársins 2019

Ólafsfjarðarvatn
Mynd: Ida M. Semey
Ólafsfjarðarvatn
Mynd: Ida M. Semey

Eins og fram kom í annál Markaðs- og menningarfulltrúa Lindu Leu Bogadóttur við afhendingu menningarstyrkja í Tjarnarborg þann 6. febrúar síðastliðinn leynist það engum sem hingað koma og þeim sem hér búa og starfa að lista og menningarlífið í Fjallabyggð öflugt og fjölbreytt. Samfélagið hefur yfir að búa gríðarlega sterkum hópi skapandi fólks sem vinnur metnaðarfullt starf sem veitir einstaklingum samfélagsins og gestum þess fjölbreytni í afþreyingu og um leið bættari lífsskilyrði.

Þau leiðu mistök urðu við vinnslu menningarannáls ársins 2019 sem fluttur var við þetta tilefni að einn fyrsti viðburður ársins var ekki nefndur sem sannarlega var ætlunin. Hér var um að ræða tónleika sem haldnir voru í Tjarnarborg en Jón Þorsteinsson, söngvari og söngkennari bauð til tónleikanna sem framlag hans til Markaðsstofu Ólafsfjarðar og til eflingar menningar í samfélaginu. Tónleikarnir voru haldnir á birtudegi 13. janúar en þessi dagur var lengi kallaður birtudagur á Ólafsfirði. Á tónleikunum komu fram þeir Maurice Rommers söngvari og Tamir Chasson sem lék undir á píanó. Flutt voru ítölsk lög, Schubert, skandínavísk lög, þar á meðal Sibelius og íslensk lög.

Frítt var inn á tónleikana og voru þeir vel sóttir.

Vilja markaðs- og menningarfulltrúi og deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála koma sérstöku þakklæti til Jóns Þorsteinssonar fyrir framlag hans til menningar í Fjallabyggð og um leið biðjast afsökunar á þessum leiðu mistökum sem urðu við vinnslu og flutning annáls ársins 2019.

Annállinn var leiðréttur og birtur á heimasíðu Fjallabyggðar og í Hellunni í febrúar síðast liðnum.