Bæjarráð Fjallabyggðar

646. fundur 31. mars 2020 kl. 08:15 - 09:40 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Helga Helgadóttir formaður, D lista
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
Starfsmenn
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
  • Elías Pétursson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Fasteignagjöld - Aðgerðir til viðspyrnu vegna Covid-19

Málsnúmer 2003064Vakta málsnúmer

Meirihluti bæjarráðs leggur fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti bæjarráðs harmar að ekki sé fyrir hendi vilji hjá minnihluta að standa saman að þeim aðgerðum sem nú er gripið til vegna COVID-19. Formaður bæjarráðs hafði samband við H-listann á laugardag og bauð forsvarsmönnum listans fulla aðkomu að þeirri tillögugerð sem er hér á dagskrá, ásamt og aðkomu að framhaldi þeirrar vinnu sem fram fer á komandi vikum og mánuðum. Þessu boði meirihluta hafnaði H-listinn í gær eftir að hafa fundað um málið.

Í ljósi ofangreinds þá leggur meirihluti bæjarráðs fram eftirfarandi tillögu er varðar frestun eindaga fasteignagjalda hjá fyrirtækjum í tímabundnum rekstrarvanda:

Gjaldendum verði heimilt að óska eftir því að eindagar fasteignagjalda sem áttu að vera 1. apríl, 1. maí, og 1. júní 2020 frestist um allt að 6 mánuði vegna Covid-19 og mögulegra áhrifa þeirrar farsóttar, enda verði óskað eftir því með tölvupósti á netfangið fjallabyggd@fjallabyggd.is.
Óskir um frestun eindaga skulu rökstuddar af umsækjanda og ákvörðun tekin á grundvelli þess rökstuðnings.
Að bæjarráð Fjallabyggðar veiti bæjarstjóra og deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála heimild til fullnaðarafgreiðslu umsókna er tengjast beiðni um frestun eindaga fasteignagjalda. Hafni starfsmenn umsókn er gjaldanda heimilt að skjóta ákvörðuninni til bæjarráðs.

Bæjarráð Fjallabyggðar samþykkir ofangreinda tillögu með tveimur atkvæðum, Helgu Helgadóttir D-lista og Nönnu Árnadóttur I-lista, varðandi frestun eindaga fasteignagjalda í samþykktri gjaldskrá fasteignagjalda árið 2020. Jón Valgeir Baldursson H-lista situr hjá.


2.Notendagjöld - Aðgerðir til viðspyrnu vegna Covid19.

Málsnúmer 2003069Vakta málsnúmer

Með vísan til bókunar meirihluta bæjarráðs við lið 1, varðandi viljaleysi H-listans til samstarfs, þá leggur meirihluti bæjarráðs fram eftirfarandi tillögu vegna innheimtu þjónustugjalda og annarra ráðstafana vegna skerðingar á starfsemi stofnana Fjallabyggðar vegna COVID-19.

Leikskólagjöld:
Ef foreldrar taka börn sín heim, í samráði við leikskólastjóra vegna COVID-19 til að létta undir með skólanum, er vistunargjald fyrir hvern heilan dag fellt niður svo og matargjald. Sama gildir ef leikskólinn lokar deild vegna manneklu eða af öðrum ástæðum. Semji foreldrar um skólavistun hluta úr degi til lengri tíma eru gjöld skert í hlutfalli við það. Hálftímagjald fellur niður þann tíma sem leikskólinn þarf að takmarka starfsemi við kl. 8.00 -16.00
Ef börn eru tekin heim á miðjum degi eða skólastarf stytt þann daginn fæst ekki endurgreiðsla.
Útgáfa reikninga: Búið er að gefa út reikninga fyrir apríl sem verða leiðréttir á næstu dögum vegna þjónustu sem ekki var nýtt í mars. Leiðrétting vegna apríl kemur fram í reikningagerð í maí.

Skólamáltíðir:
Skólaritari hefur sent upplýsingar fyrir apríl mánuð á gjaldkera, á aprílreikningi verða þeir dagar í mars, sem nemendur eru heima vegna Covid-19 felldir niður, þar af er öll unglingadeildin þar sem nemendur eru í fjarnámi. Foreldrar eru hvattir til að endurskoða skráningu fyrir apríl mánuð með t.t. skólasóknar barna sinna.
Útgáfa reikninga: Við útgáfu maíreikninga verður frádráttur vegna daga í apríl sem nemendur eru heima v. Covid-19. Skólaritari heldur utan um skráningu.

Lengd viðvera:
Gjald fyrir þá daga í mars sem Lengd viðvera var lokuð, kemur til frádráttar á maíreikningi.
Útgáfa reikninga: Reikningar verði ekki sendir út fyrir apríl.

Sund og líkamsrækt:
Tímabilskort í sund og líkamsrækt verði framlengd um þann tíma sem lokun varir.

Þjónustugjöld félagsþjónustu:
Ekki verður innheimt fyrir þjónustu sem fellur niður, s.s. fæðisgjald í Iðju og dagdvöl aldraðra. Ekki verður innheimt fyrir þjónustu sem fellur niður á heimilum fólks s.s. félagslega heimaþjónustu.
Reikningar hafa hingað til verið gefnir út eftir á, þannig að ekki ætti að koma til sérstakra leiðréttinga.

Meirihluti bæjarráðs samþykkir tillöguna með tveimur atkvæðum Helgu Helgadóttur og Nönnu Árnadóttur og felur bæjarstjóra og deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála fullnaðarafgreiðslu málsins. Jón Valgeir Baldursson H-lista situr hjá.

3.Áframhaldandi viðbrögð - Aðgerðir til viðspyrnu vegna Covid19.

Málsnúmer 2003070Vakta málsnúmer

Með vísan til bókunar meirihluta við lið 1, varðandi viljaleysi H-listans til samstarfs, þá leggur meirihluti bæjarráðs fram eftirfarandi tillögu:

Meirihluti bæjarráðs felur bæjarstjóra, forseta bæjarstjórnar og formanni bæjarráðs að móta tillögur að frekari aðgerðaáætlun sveitarfélagsins. Við mótun tillagna skal horft til fjárhags sveitarfélagsins, fjárhagsáætlunar, framkvæmdaáætlunar og hugmynda og ábendinga Sambands Íslenskra sveitarfélaga frá 20. mars sl. Tillögur að aðgerðum verði lagðar fyrir í bæjarráði eða bæjarstjórn eftir því sem fram vindur.

Meirihluti bæjarráðs samþykkir tillöguna með tveimur atkvæðum, Helgu Helgadóttur og Nönnu Árnadóttur. Jón Valgeir Baldursson H-lista situr hjá.

4.Snjósöfnun við Suðurgötu 70 Siglufirði

Málsnúmer 2003044Vakta málsnúmer

Á 645. fundi bæjarráðs óskaði ráðið eftir umsögn bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar varðandi erindi Hjálmars Jóhannessonar, eins eigenda húseignar að Suðurgötu 70 Siglufirði, dags. 19.03.2020, þar sem þess var óskað að sveitarfélagið gerði viðeigandi ráðstafanir til þess að vinda ofan af mikilli snjósöfnun við húseignina vegna þeirra framkvæmda sem farið var í við grisjun trjáa norðan við húseignina sumarið 2018.

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar, dags. 25.03.2020 þar sem fram kemur að mikil ofankoma hefur verið í Fjallabyggð það sem af er þessum vetri og einnig má segja að mikil ofankoma hafi verið árið 2019 samanber kostnað við snjómokstur það ár en kostnaður árið 2019 var sá mesti frá því snjómokstur færðist frá áhaldahúsi til verktaka árið 2011.

Varðandi lóðina sem er norðan við Suðurgötu 70 þá er rétt að sumarið 2018 var grisjað töluvert í skóginum sem þar er. Sú aðgerð var ekki gerð með samþykki eða í samráði við Fjallabyggð.
Það er ekki óeðlilegt að snjósöfnun við húseignina hafi verið mikil, bæði árið 2019 og núna á þessu ári þar sem mjög mikil ofankoma hefur verið.
Hvort grisjun skógar norðan við húsið sé um að kenna er ekki hægt að fullyrða en þó svo væri er ólíklegt að það skapaði Fjallabyggð skaðabótaskyldu gagnvart nágrönnum. Hugsanleg aðgerð til þess að minnka snjósöfnun við Suðurgötu 70 gæti verið að eigendur setji girðingu á lóðarmörkum norðan við húsið.

Bæjarráð Fjallabyggðar samþykkir vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar.

5.Æfingarsvæði á Hóli, erindi frá Golfklúbbi Siglufjarðar

Málsnúmer 2003028Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að samkomulagi á milli Fjallabyggðar og Golfklúbbs Siglufjarðar um afnot af æfingarsvæði (æfingarvelli) á knattspyrnusvæðinu að Hóli Siglufirði undir barna- og unglingastarf sumarið 2020.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála að undirrita samkomulagið fyrir hönd sveitarfélagsins.

6.22.grein náttúruverndarlaga

Málsnúmer 2002048Vakta málsnúmer

Á 641. fundi bæjarráðs óskaði ráðið eftir umsögn deildarstjóra tæknideildar vegna erindis félags Flakkara, Húsbílaeigenda, 4x4 og Boreal ehf., dags. 19.02.2020 þar sem óskað var eftir því við sveitarfélög að þau tækju jákvætt í tillögu félaganna að breytingu á 22. gr. náttúruverndarlaga.

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar, dags. 26.03.2020 þar sem deildarstjóri leggur til við bæjarráð að erindinu verði hafnað með vísan til Lögreglusamþykktar í Fjallabyggð.
Einnig leggur undirritaður til að gerð verði svohljóðandi breyting á 9. gr. Lögreglusamþykktar Fjallabyggðar, í stað svohljóðandi gr. "Bæjarstjórn getur sett umgengnisreglur um skemmtigarða, leikvelli, lystigarða, tjarnir, kirkjugarða og önnur opinber svæði, enda séu reglurnar festar upp við innganginn eða á öðrum áberandi stað. Hvorki má troða niður ræktaða bletti, grasreiti, blómabeð og limgerði á almannafæri né slíta þar upp blóm eða annan gróður. Eigi má gista í tjöldum, húsbílum, hjólhýsum og tjaldvögnum á almannafæri í þéttbýli utan sérmerktra svæða."
Verði 9. gr. svohljóðandi: "Bæjarstjórn getur sett umgengnisreglur um skemmtigarða, leikvelli, lystigarða, tjarnir, kirkjugarða og önnur opinber svæði, enda séu reglurnar festar upp við innganginn eða á öðrum áberandi stað. Hvorki má troða niður ræktaða bletti, grasreiti, blómabeð og limgerði á almannafæri né slíta þar upp blóm eða annan gróður. Eigi má gista í tjaldvögnum, tjöldum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum, sendibifreiðum með svefnaðstöðu og öðrum sambærilegum búnaði á almannafæri í þéttbýli utan sérmerktra svæða. Það á einnig við um gistingu á almannafæri innan marka sveitarfélagsins. Óheimilt er að hafa gistingu í tjaldvögnum, tjöldum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum, sendibifreiðum með svefnaðstöðu og öðrum sambærilegum búnaði utan skipulagðra tjaldsvæða og þéttbýlis nema leyfi landeiganda eða rétthafa lands komi þar til, sbr. lög um náttúruvernd nr. 60/2013 með síðari breytingum."

Bæjarráð samþykkir að hafna erindi félags Flakkara, Húsbílaeigenda, 4x4 og Boreal með vísan í Lögreglusamþykkt Fjallabyggðar.

Bæjarráð samþykkir tillögu að breytingu á 9. gr á Lögreglusamþykkt Fjallabyggðar og vísar henni til samþykktar í bæjarstjórn.

7.BMX BRÓS sýning

Málsnúmer 2003001Vakta málsnúmer

Á 643. fundi bæjarráðs óskaði ráðið eftir umsögn deildarstjóra fræðslu,- frístunda- og menningarmála vegna erindis BMX-BRÓS, dags. 01.03.2020 þar sem boðið var upp á orkumikla BMX sýningu sumarið 2020 með tilliti til kostnaðar og hugsanlegrar þátttöku.

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra fræðslu,- frístunda- og menningarmála, dags. 26.03.2020 þar sem fram kemur að Fjallabyggð heldur Trilludaga og skipuleggur barnadagskrá sem reynt hefur verið að hafa sem næst hátíðarsvæðinu til að dreifa ekki gestum. Sýningin BMX BRÓS þarfnast steypts svæðis sem er á stærð við körfuboltavöll. Það er mat undirritaðrar og markaðs- og menningarfulltrúa að þessi sýning passi ekki fyrir Trilludaga og rúmist auk þess ekki innan þeirra fjármuna sem ætluð er í barnadagskrá.

Bæjarráð þakkar BMX-BRÓS gott boð en afþakkar boð um sýningu að þessu sinni.

8.Kennitölur á vegum Fjallabyggðar

Málsnúmer 2003066Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að bréfi bæjarstjóra til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, dags. 26.03.2020 þar sem óskað er eftir því að lífeyrisskuldbindingar Samþætting skóla/félþj utanv. Eyjarf. Kt. 690999-3079 verði færðar yfir á Fjallabyggð vegna niðurlagningar fyrrgreinds félags.

Bæjarráð samþykkir drögin og felur bæjarstjóra að senda erindið.

9.Brunavarnaáætlun Fjallabyggðar 2020-25 og framkvæmdaáætlun

Málsnúmer 2003042Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að brunavarnaráætlun Fjallabyggðar fyrir árin 2020-2025 ásamt framkvæmdaráætlun.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar að vinna málið áfram.

10.Rekstraryfirlit - 2020

Málsnúmer 2003072Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar rekstraryfirlit fyrir janúar og febrúar 2020.

11.Tillaga H-listans v. framkvæmda á árinu - Covid- 19

Málsnúmer 2003071Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga Jóns Valgeirs Baldurssonar f.h. H-listans:
"H-listinn leggur til að farið verði í að endurskoða framkvæmdaáætlun Fjallabyggðar með það í huga að forgangsraða framkvæmdafé í mörg smærri verkefni í stað stærri verkefna s.s. gervigrasvallar en það verkefni krefst mikilla fjárútláta en er ekki endilega mannaflafrekt. Það er líklegt að atvinnuleysi mun aukast í sveitarfélaginu og erfitt getur reynst fyrir skólafólk að fá vinnu í sveitarfélaginu í sumar. Því er nauðsynlegt að Fjallabyggð bregðist nú þegar við og reyni að gera allt til að auka framkvæmdir þannig að hægt verði að sporna við auknu atvinnuleysi s.s. í viðhaldi eigna sveitarfélagsins, fara í framkvæmdir sem snúa að umhverfismálum og fleira. Að nógu er að taka.
H-listinn er tilbúinn til að vinna að tillögum með meirihlutanum í þessu stóra verkefni og nýta allar leiðir til að kalla eftir tillögum um verkefni, t.d. frá nefndum og frá bæjarbúum. Þessi vinna þarf að hefjast strax."

Meirihluti bæjarráðs hafnar tillögu H-listans og vísar í bókun við lið 3 í fundargerðinni.
Tillaga H-listans er felld með tveimur atkvæðum Helgu Helgadóttur og Nönnu Árnadóttur gegn einu atkvæði Jóns Valgeirs Baldurssonar.


12.Trúnaðarmál

Málsnúmer 1902053Vakta málsnúmer

Niðurstaða bæjarráðs færð í trúnaðarbók.

13.Athugasemd við frumvarp um flutningsjöfnun

Málsnúmer 2003050Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Markaðsstofu Norðurlands, dags. 15.03.2020 þar sem fram kemur að Markaðsstofa Norðurlands hafi sent inn á samráðsgátt sjórnvalda stjórnvalda eftirfarandi athugasemd við frumvarp um flutningsjöfnun á flugvélaeldsneyti https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2662

"Markaðsstofa Norðurlands (MN) gerir alvarlega athugasemd við að í þessu frumvarpi sé hvergi minnst á flutningsjöfnun á flugvélaeldsneyti.
Um langt árabil hefur MN, Flugklasinn Air 66N, Isavia, Íslandsstofa, sveitarfélög, samtök sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélög og fyrirtæki á Norðurlandi ásamt fleiri aðilum unnið að því að markaðssetja áfangastaðinn Norðurland og Akureyrarflugvöll sem aðra gátt inn í landið. Það er jafnframt yfirlýst stefna stjórnvalda að vinna að því markmiði og hefur Akureyrarflugvöllur verið settur þar í forgrunn. Flugþróunarsjóður var stofnaður til þess að skapa hvata fyrir flugrekendur til að fljúga beint til Akureyrar eða Egilsstaða og Isavia hefur sett upp afsláttarkerfi af sínum gjöldum fyrir beint millilandaflug inn á þessa flugvelli.
Staðan er samt sem áður sú, að samkeppnishæfi þessara flugvalla er mjög skekkt borið saman við Keflavíkurflugvöll - ekki hvað síst er varðar eldsneytisverð. Öllu flugvélaeldsneyti fyrir millilandaflug er landað á sama stað, í Helguvík, og dreift þaðan. Það þýðir að án flutningsjöfnunar, verður eldsneytið mun dýrara á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík. Þetta þýðir jafnframt að hvatinn sem búinn var til með styrkjum Flugþróunarsjóðs (leiðaþróunardeild sjóðsins, þar sem í boði er ákveðin fjárhæð fyrir hvern farþega sem lendir á viðkomandi flugvöllum) hverfur í það að greiða niður hærra eldsneytisverð á þessum flugvöllum og dugir ekki alltaf til. Það hlýtur að vera markmið stjórnvalda að leiðrétta þennan mun, fella þotueldsneyti undir lög um flutningsjöfnun og virkja þannig hvatann sem Flugþróunarsjóði var ætlað að skapa.
MN skorar á stjórnvöld að leiðrétta aðstöðumun á alþjóðaflugvöllum landsins með því að fella flugvélaeldsneyti undir lög um flutningsjöfnun með einum eða öðrum hætti."

Bæjarráð samþykkir að taka undir athugasemdir Markaðsstofu Norðurlands við frumvarp um flutningsjöfnun flugvélaeldsneytis og felur deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar að senda erindi þess efnis í samráðsgátt stjórnvalda.

14.Tillaga að umsögn um lagafrumvarp

Málsnúmer 2003054Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, dags. 20.03.2020 vegna umsagnar til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um frumvarp um breytingu á lögum nr. 75/2011, um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.
Vísað er til tilkynningar á Samráðsgátt stjórnvalda dags. 6. mars 2020, mál nr. 65/2020, þar sem frumvarp um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er sett fram til umsagnar.
Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE, hafa farið yfir frumvarpsdrögin og leggja fram eftirfarandi umsögn:
"SSNE telur mjög jákvætt að frumvarpið felur í sér endurskilgreiningu á gildissviði laganna þannig að það nái til markmiða um að stuðla að jafnri dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun á vegum sveitarfélaga og einkaaðila. Samtökin eru einnig sammála því að mikilvægt er að sjóðurinn styðji við stefnu sem byggist á sjálfbærri þróun, jafnvægi og svæðisbundinni þróun eins og nærsamfélag á hverju markaðssvæði hefur ákveðið að stefna að, s.s. með gerð áfangastaðaáætlana.
SSNE gera athugasemd við það að ekki skuli vera litið til ferðamannaleiða sem akvegar. Á Norðurlandi eru nú þegar tvær skilgreindar ferðamannaleiðir, annars vegar Norðurstrandarleið og hins vegar Demantshringurinn. SSNE er einnig kunnugt um að Vestfirðir og Vesturland hafa nýverið tilkynnt um nýja leið á þeirra svæði. SSNE telur að skilgreina þurfi hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að leið teljist vera ferðamannaleið, hvort sem um ræðir ferðamannaleið sem nær yfir akveg eða ferðamannaleið sem er göngu-, reið- eða hjólaleið. Vekur SSNE athygli á því að hjólreiðar, ganga og útreiðar eru mjög vaxandi afþreying hér á landi sem brýnt er að hlúa að.
Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra áskilja sér rétt til að koma með frekari umsagnir á síðari stigum."

Bæjarráð tekur undir tillögu að umsögn SSNE til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um frumvarp um breytingar á lögum nr. 75/2011, um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

15.Verkefnin hjá SSNE

Málsnúmer 2003053Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE, dags. 20.03.2020 til upplýsinga um þau verkefni sem samtökin eru að fást við um þessar mundir í tengslum við alvarlegt ástand sem við blasir í landshlutanum vegna COVID-19.

Einnig lagt fram til kynningar erindi stjórnar Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE, dags. 23.03.2020 til ráðherra ríkisstjórnarinnar varðandi leiðir til viðspyrnu í þeim aðstæðum sem nú eru uppi vegna COVID-19. Þar leggur stjórn til að stórauknu fjármagni verði veitt inn í Sóknaráætlun Norðurlands eystra til að mæta þeim áskorunum sem við blasa og tilgreina stór og mikilvæg verkefni sem þegar hafa verið útfærð og auðvelt er að hrinda í framkvæmd.
-
Uppbygging Akureyrarflugvallar
-
Hjúkrunarheimili á Húsavík
-
Ný heilsugæsla á Akureyri
-
Legudeild við sjúkarhúsið á Akureyri
-
Átak í uppbyggingu innviða;
-
Uppbygging dreifikerfis raforku
-
3ja fasa rafmagn
-
Endurbætur á jarðgöngum á Tröllaskaga
-
Vegur um Brekknaheiði;
-
tengivegir og héraðsvegir
-
Efri brú yfir Jökulsá á Fjöllum
-
Ljósleiðaratengingar á svæðinu
-
Draga verulega úr fjöldatakmörkunum að Háskólanum á Akureyri

16.Varðandi ársþing SSNE

Málsnúmer 2003068Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE, dags. 26.03.2020 þar sem fram kemur að samkvæmt 8. gr. samþykkta fyrir skal ársþing haldið eigi síðar en 30. apríl ár hvert og til þess skal boðað með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara, sbr. 7. gr..
Vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi vegna COVID-19 er óskað eftir því við sveitarfélög að þau taki afstöðu til þess hvort halda eigi ársþing í fjarfundi eða fresta því.
Einnig eru sveitarstjórnir beðnar að tilkynna framkvæmdastjóra SSNE um skipan aðal- og varafulltrúa á aðalfund SSNE.
Þá eru sveitarstjórnir beðnar að senda inn skipan aðal- og varafulltrúa á ársþing SSNE.

Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti að fresta ársþingi SSNE.
Skipaðir á ársþing SSNE eru; aðalmenn : Helga Helgadóttir, Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir, Jón Valgeir Baldursson og Elías Pétursson.
Varamenn :Sigríður Guðrún Hauksdóttir, Nanna Árnadóttir, Tómas Atli Einarsson og Særún Hlín Laufeyjardóttir.

17.Til umsagnar 666. mál frá nefndsviði Alþingis

Málsnúmer 2003055Vakta málsnúmer

Lagt fram til umsagnar frá Velferðarnefnd Alþingis, dags. 21.03 2020 frumvarp til laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða, 666. mál.

18.Fundargerð 7. fundar stjórnar SSNE

Málsnúmer 2003052Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 7. fundar stjórnar SSNE sem haldinn var 11. mars sl.

Fundi slitið - kl. 09:40.