Bæjarráð Fjallabyggðar

619. fundur 09. september 2019 kl. 16:30 - 17:45 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Helga Helgadóttir formaður, D lista
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
Starfsmenn
  • Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Ósk um launað leyfi í námslotum samkv. viðmiðunarreglum

Málsnúmer 1909015Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Særúnar Hlínar Laufeyjardóttur, dags. 03.09.2019 þar sem óskað er eftir launuðu námsleyfi til að geta mætt í starfslotur skólaárið 2019-2020 í samræmi við 4. gr. viðmiðunarregla um launuð leyfi í Fjallabyggð.

Einnig lagt fram vinnuskjal deildarstjóra fræðslu-, frístunda og menningarmála dags. 04.09.2019.

Bæjarráð samþykkir að veita Særúnu Hlín Laufeyjardóttur launað leyfi í starfslotum á skólaárinu 2019-2020 í samræmi við 4. gr. viðmiðunarreglna um launað leyfi í Fjallabyggð.

2.Ósk um námsleyfi vegna vettvangsnáms í M.Ed í menntunarfræðum

Málsnúmer 1909016Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Lilju Rósar Aradóttur dags. 21.08.2019 þar sem óskað er eftir launuðu námsleyfi á meðan á vettvangsnámi við Grunnskóla Fjallabyggðar stendur.

Einnig lagt fram vinnuskjal deildarstjóra fræðslu-, frístunda og menningarmála dags. 04.09.2019.

Bæjarráð samþykkir að veita Lilju Rós Aradóttur launað leyfi í vettvangsnámi í samræmi við 4. gr. viðmiðunarreglur um launað námsleyfi í Fjallabyggð.

3.Hreinsun á skurðum og ræsum ofan Ólafsfjarðar

Málsnúmer 1908069Vakta málsnúmer

Á 618. fundi bæjarráðs óskaði ráðið eftir umsögn deildarstjóra tæknideildar varðandi erindi Ásgeirs Loga Ásgeirssonar vegna hreinsunar skurða og ræsa ofan Hlíðarvegs í Ólafsfirði.

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar dags. 06.09.2019 þar sem fram kemur að farin er eftirlitsferð einu sinni á ári og ástand skurða metið með tilliti til hvort hreinsa þurfi upp úr þeim. Árið 2015 fór skriða ofan í einn skurðinn vegna mikilla rigninga og var þá hreinsað úr þeim skurði. Ekki hefur reynst nauðsynlegt að hreinsa úr skurðum frá þeim tíma.

Bæjarráð samþykkir að senda ofangreinda umsögn deildarstjóra tæknideildar og bókun bæjarráðs.

4.Drög að leiðbeiningum um gjaldskrár byggingarfulltrúaembætta

Málsnúmer 1908001Vakta málsnúmer

Á 615. fundi bæjarráðs óskaði ráðið eftir umsögn deildarstjóra tæknideildar varðandi drög að leiðbeiningum um gjaldskrár byggingarfulltrúaembætta.

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar, dags. 06.09.2019 þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við leiðbeinandi gjaldskrá.

Bæjarráð samþykkir að vísa málinu til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020.

5.Innheimtureglur Fjallabyggðar

Málsnúmer 1903067Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að endurskoðuðum reglum um innheimtu Fjallabyggðar.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi drög og vísar þeim til afgreiðslu bæjarstjórnar.

6.Flóð og úrkoma

Málsnúmer 1908024Vakta málsnúmer

Lögð fram umsögn bæjarstjóra, dags. 06.09.2019 vegna fráveitumála og þeirra aðstæðna sem sköpuðust í Fjallabyggð dagana 14.- 16. ágúst sl. þar sem fram kemur :

Þann 12.-14. ágúst s.l. varð gífurleg úrkoma bæði á Siglufirði og Ólafsfirði, sem reyndist verða um 200 mm á hvorum stað. Engin ábending eða aðvörun barst frá veðurstofunni eða almannavörnum. Á sama tíma var stækkandi straumur og sjávarstaða því tiltölulega há.

Ólafsfjörður:
Mikill vatnselgur var á öllum opnum svæðum og tjörnin við Tjarnarborg var yfir full, aðallega vegna þess að einhver óviðkomandi aðili hafði lokað útfallsröri tjarnarinnar til hálfs. Ef það hefði ekki gerst þá hefði grunnvatnsstaða kringum grunnskóla og íþróttamannvirki verið lægri.

Flóðavatn komst inn í kjallara sundlaugarinnar og olli tjóni upp á 0.5 -1.0 mkr. Einnig varð verktaki sem vann við skólalóð grunnskólans fyrir tjóni, en það er ekki vitað hvað það varð mikið.

Á þessu ári á að ljúka framkvæmdum við útrásir í Ólafsfirði. Þá er lokið við að koma fráveituvatni langt út fyrir stórstreymis fjöruborð og gildandi heilbrigðiskröfur því uppfylltar. Á syðri útrásarbrunnunum verður lagt aukayfirfall til að auka afköst holræsakerfisins.

Siglufjörður:
Rigningarmagn var heldur meira en í hamfaraúrhellinu 28/8 2015. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á holræsakerfinu síðan þá og þær komu í veg fyrir meira tjón en raun varð á. Tilkynnt tjón vegna hækkandi grunnvatnsstöðu voru u.þ.b. 10 -12, sem var aðallega vegna flóða í kjallara gegnum sökkla og plötu. Þegar háflóð var á Siglufirði komst vatn og skólp ekki út í sjó vegna hárrar vatnsstöðu í holræsakerfinu.
Fengnir voru dælubílar frá Slökkviliði Fjallabyggðar og Hreinsitækni til að dæla úr brunnum við Aðalgötu og Eyrarflöt til að lækka vatnsstöðu í brunnunum og minnka þar með þrýsting á holræsakerfinu.
Það er ljóst að ekki er hægt að hanna kerfi sem ræður vandræðalaust við verstu skilyrði þ.e. úrhellisrigningu og háa sjávarstöðu.

Tillögur um úrbætur:

1.
Áframhaldandi vinna við að fanga linda-/ofanvatn og tengja það í sérstakar ofanvatnslagnir.
2.
Fjárfest verði í færanlegum dælum með mikla afkastagetu sem notaðar verði við útrásar brunna til að létta á kerfinu í miklu úrhelli og hárri sjávarstöðu.
3.
Gert verði samkomulag við veðurstofu Íslands um að viðvörun berist til yfirstjórnar Fjallabyggðar, ef miklar rigningar eru fyrirsjáanlegar á utanverðum Tröllaskaga.
4.
Brýnt verði fyrir húseigendum, sem eru með niðurgrafna kjallara á eyrinni á Siglufirði að setja einstreymisloka á hús og drenkerfi með dælu verði lagt í kringum húsin.

Bæjarráð samþykkir að vísa tillögum að úrbótum og áframhaldandi vinnu við frárennsli í Fjallabyggð til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020.

7.Óásættanleg meðferð og stjórnsýsla á opinberu fé

Málsnúmer 1807054Vakta málsnúmer

Á 616. fundi bæjarráðs óskaði ráðið eftir umsögn deildarstjóra tæknideildar vegna erindis Verkvals ehf. varðandi útboð á holræsahreinsun í Fjallabyggð.

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar, dags. 06.09.2019 þar sem fram kemur að fyrirhugað er að halda verðkönnun vegna holræsahreinsunar í haust í samstarfi við Dalvíkurbyggð.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að vinna málið áfram.

8.Vátryggingar Fjallabyggðar

Málsnúmer 1809037Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar, dags. 09.09.2019 þar sem óskað er eftir samþykki til að framlengja samningi um vátryggingaviðskipti Fjallabyggðar við Sjóvá, um eitt ár í samræmi við 7. gr. samningsins.

Bæjarráð samþykkir að framlengja samninginn um eitt ár, eða til 31. desember 2020 og felur deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar að fylgja málinu eftir.

9.Launayfirlit tímabils - 2019

Málsnúmer 1901048Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar launayfirlit fyrir tímabilið janúar til ágúst 2019.

10.Laugarvegur 39 - íbúð 101

Málsnúmer 1712036Vakta málsnúmer

Lagt fram undirritað kauptilboð í íbúð 101 að Laugarvegi 39, dags. 4. september, tilboðinu var hafnað og gert var gagntilboð sem ekki var tekið en nýtt kauptilboð barst frá sama aðila dags. 6. september en móttekið 9. september sem bæjaryfirvöld höfnuðu.

Þá barst kauptilboð frá öðrum aðila dags. 5. september.

Bæjarráð samþykkir að taka kauptilboði dags. 5.september.


11.Umhverfismatsdagurinn 2019

Málsnúmer 1909003Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Grímu Eikar Káradóttur fh. Skipulagsstofnunar, dags. 30. ágúst 2019 þar sem fram kemur að Umhverfismatsdagurinn, árlegt málþing Skipulagsstofnunar um umhverfismat, fer fram í Norræna húsinu þann 13. september næstkomandi klukkan 13.00-16.00.

12.Jafnréttisviðurkenning

Málsnúmer 1909009Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Önnu G. Björnsdóttur fh. Jafnréttisstofu, dags. 02.09.2019 þar sem fram kemur að Jafnréttisráð óskar eftir tilnefningum til jafnréttisviðurkenningar Jafnréttisráðs fyrir árið 2019. Viðurkenningu geta hlotið einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög, hópar eða félagasamtök, sem á einn eða annan hátt hafa skarað fram úr eða markað spor á sviði jafnréttismála í víðri merkingu.
Tilnefningum skal skila rafrænt eigi síðar en 27. september 2019 til Jafnréttisráðs á netfangið jafnrettisrad@jafnretti.is

13.Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Málsnúmer 1909010Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Rúnars Guðjónssonar fh. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðs, dags. 03.09.2019 þar sem fram kemur að undirbúningur sé þegar hafinn að árlegum minningardegi Sameinuðu þjóðanna um þá sem hafa látist í umferðarslysum sem haldinn verður verður 17. nóvember nk.

14.Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkis í málefnum sveitarfélaga

Málsnúmer 1908034Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Jóhönnu Sigurðardóttur fh. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis þar sem vakin er athygli á því að tvö ný fylgiskjöl hafa bæst við tillögu til þingsályktunar um stefnu í málefnum sveitarfélaga í samráðsgátt Stjórnarráðsins.
Annas vegar er um að ræða umsögn Byggðastofnunar um tillöguna og hins vegar lögfræðilegt álit á stjórnskipunarlegum atriðum hennar. Þá er einnig vakin athygli á að í samráðsgáttinni eru framkomnar tillögur og fylgiskjöl til umsagnar er varða reglur um fjárhagslegan stuðning Jöfnunarsjóðs til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga.

15.Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga - 2019

Málsnúmer 1901024Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 873. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var föstudaginn 30. ágúst sl.

Bæjarráð tekur undir bókun stjórnar Sambandsins í lið 3 í fundargerðinni.

16.Fundargerðir nefnda og stjórna Fjallabyggðar - 2019

Málsnúmer 1901004Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar fundargerðir 244. fundar skipulags og umhverfisnefndar Fjallabyggðar og 56. fundar markaðs- og menningarnefndar Fjallabyggðar.

Fundi slitið - kl. 17:45.