Í samráði við stjórn SSNE er starfsfólk að skoða möguleikann á að bjóða sveitarfélögunum að senda kjörna fulltrúa sína í kynnisferð á vegum SSNE til Danmerkur 4. - 7. mars 2024. Tilgangur ferðarinnar er að kynnast því hvernig sveitarfélög í Danmörku hafa tekist á við ýmis verkefni sem brenna á sveitarfélögum á Norðurlandi eystra s.s. íbúasamráð, samvinnu sveitarfélaga, samgöngumál og græna umbreytingu, svo dæmi séu tekin.
Ferðin mun eiga snertipunkt við RECET verkefnið sem SSNE og Eimur eru meðal þátttakenda; RECET er Evrópuverkefni sem ætlað er að aðstoða sveitarfélög í dreifðum byggðum við innleiðingu orkuskipta. Verkefnið er unnið í samstarfi við Energiakademiet á Samsø, og er stefnt á að heimsækja eyjuna í ferðinni og fá kynningu á reynslu þeirra, einkum í tengslum við íbúasamráð og orkuskipti. Einnig njótum við aðstoðar danska sendiráðsins á Íslandi við skipulagningu ferðarinnar sem hefur boðist til að skipuleggja heimsóknir og kynnisferðir fyrir hópinn.
Lagt fram til kynningar