Erindi frá Golfklúbbi Siglufjarðar

Málsnúmer 1903006

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 596. fundur - 12.03.2019

Lagt fram erindi Golfklúbbs Siglufjarðar, dags. 07.03.2019 þar sem óskað er eftir upplýsingum um niðurstöðu bæjarráðs er varðar umsókn um rekstrarstyrk fyrir árið 2019. Einnig upplýsingar um afgreiðslur ráða, nefnda og bæjarstjórnar er varðar breytingar á rekstrarstyrk til klúbbsins undanfarin ár.
Þá óskar Golfklúbburinn eftir viðræðum við sveitarfélagið vegna landbóta.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir umsögn bæjarstjóra-, og deildarstjóra tæknideildar og boða forsvarsmenn Golfklúbbsins á fund bæjarráðs.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 598. fundur - 26.03.2019

Forsvarsmenn Golfklúbbs Siglufjarðar, Ingvar Hreinsson, Hanna Björnsdóttir og Jóhann Már Sigurbjörnsson mættu á fund bæjarráðs og fóru yfir málefni Golfklúbbs Siglufjarðar.



Bæjarráð Fjallabyggðar - 602. fundur - 30.04.2019

Í framhaldi af fundi bæjarráðs og stjórnar Golfklúbbs Siglufjarðar sem var þann 26. mars sl. varðandi umsókn félagsins um rekstrarstyrk.

Lagður fram undirritaður samningur milli Golfklúbbs Siglufjarðar (GKS) og Sigló Golf & Ski Club (Sigló Golf), dags. 23.04.2019 þar sem kveðið er á um aðkomu GKS að golfvelli í Hólsdal, heimavelli klúbbsins, og skyldur aðila í því sambandi.

Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við styrkbeiðni Golfklúbbs Siglufjarðar um rekstrastyrk þar sem um einkarekinn golfvöll er að ræða en ekki íþróttasvæði í eigu Fjallabyggðar, rekstrarstyrkir til íþróttafélaga eru einungis greiddir til þeirra félaga sem reka íþróttasvæði í eigu Fjallabyggðar.

Bæjarráð tekur fram að sveitarfélagið hefur úthlutað GKS æfingasvæði fyrir barna- og unglingastarf og veitt klúbbnum styrk vegna barna- og unglingastarfs að upphæð 300.000 á árinu 2019. GKS hefur einnig, eins og önnur félög, aðgang að bæjarstyrk til UÍF vegna barna- og unglingastarfs, samkvæmt úthlutunarreglum. Styrkur sveitarfélagsins til UÍF á árinu 2019 vegna barna- og unglingastarfs er 11 mkr.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 604. fundur - 14.05.2019

Lagt fram erindi Jóhanns Más Sigurbjörnssonar fh. Golfklúbbs Siglufjarðar (GKS), dags. 08.05.2019 þar sem GKS mótmælir afgreiðslu bæjarráðs frá 30.04.2019 þar sem rekstarstyrk til félagsins var hafnað á þeim forsendum að GKS er ekki að reka íþróttasvæði í eigu Fjallabyggðar. En bent var á að forsenda rekstarstyrks til íþróttafélaga er að þau reki og sjái um umhirðu á íþróttasvæðum í eigu Fjallabyggðar samkvæmt samningi þar um.
Í erindi GKS kemur einnig fram að Fjallabyggð hafi lagt 16 mkr. í uppbyggingu á golfvelli í Hólsdal sem er á vegum sjálfseignarstofnunarinnar Leyningsáss og Fjallabyggð hafi verið stofnaðili að og að rekstarsamningur við Golfklúbb Fjallabyggðar hafi verið hækkaður úr 1,5 mkr. árið 2019 í 2.9 mkr. Óskar GKS eftir svörum og upplýsingum við eftirfarandi:
1.
Af hverju var rekstarstyrkur til GFB hækkaður um 1.4 mkr.?
2.
Óskað er eftir fundargerðum þeirra nefnda og ráða sem ákváðu þessa hækkun
3.
Fjölgaði brautum vallarins eða jókst umfang rekstursins á milli ára?
4.
Í þágu hverra er Fjallabyggð að greiða fyrir þessa umhirðu og í hvað er styrkurinn ætlaður?
5.
Hverjar eru fjárveitingar til framkvæmda á Skeggjabrekkuvelli í ár og næstu 4 ár?
6.
Samræmist það jafnræðisreglu að mismuna íþróttafélögum með þessum hætti?
7.
Geta íþróttafélög átt von á því að missa styrk frá sveitarfélaginu ef fjármögnun íþróttamannvirkja er með öðrum hætti en í gegnum sveitarsjóð?
8.
Tekjur af félagsgjöldum renna þær beint til Fjallabyggðar eða í GFB
Þá er ítrekað að beðið hafi verið um upplýsingar úr fundargerðum í fyrra erindi GKS, dags. 23.04.2019 auk þess sem ekki hafi borist svar við ósk, í sama erindi, um bætur fyrir framkvæmdir á Hólsvelli sem GKS hafði til afnota frá árinu 1970.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir umsögn bæjarstjóra, deildarstjóra tæknideildar og deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála.
Fylgiskjöl:

Bæjarráð Fjallabyggðar - 616. fundur - 20.08.2019

Á 604. fundi bæjarráðs þann 14.05.2019 óskaði ráðið eftir umsögn bæjarstjóra, deildarstjóra tæknideildar og deildarstjóra fræðslu-, frístunda og menningarmála vegna erindis Jóhanns Más Sigurbjörnssonar fh. Golfkklúbbs Siglufjarðar (GKS), dags. 28.05.2019.

Lagt fram vinnuskjal bæjarstjóra, deildarstjóra tæknideildar og deildarstjóra fræðslu,- frístunda- og menningarmála, dags, 16.08.2019 ásamt fylgigögnum vegna erindis Golfklúbbs Siglufjarðar frá 28.05.2019.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi gögn og felur deildarstjóra fræðslu,- frístunda- og menningarmála að senda svarbréf til forsvarsmanns GKS.