Samstarf Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga við innleiðingu á nýju húsnæðisbótakerfi

Málsnúmer 1611048

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 476. fundur - 22.11.2016

Lagt fyrir erindi Vinnumálastofnunar dagsett 11. nóvember 2016, um samstarf Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga við innleiðingu á nýju húsnæðisbótakerfi.
Um þessar mundir er Vinnumálastofnun að taka upp nýtt húsnæðisbótakerfi, en ný lög um húsnæðisbætur taka gildi 1. janúar 2017. Greiðslustofa húsnæðisbóta mun opna bráðlega og verður hún staðsett á Sauðárkróki.
Vel heppnuð innleiðing á nýju húsnæðisbótakerfi er háð góðu samstarfi milli Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga um land allt. Vinnumálastofnun telur afar mikilvægt að fá heimild til að nýta þá þekkingu sem skapast hefur hjá sveitarfélögum eftir áralanga umsjón með húsaleigubótum.
Nú í nóvember mun Vinnumálastofnun opna fyrir umsóknir um húsnæðisbætur. Sótt verður um húsnæðisbætur rafrænt á heimasíðunni husbot.is. Unnið er að því að kynna nýtt húsnæðisbótakerfi og fer Vinnumálastofnun þess á leit við sveitarfélögin að þau aðstoði stofnunina við að auglýsa og kynna breytinguna fyrir skjólstæðingum sínum.
Við innleiðingu á húsnæðisbótakerfinu er þörf á miðlun upplýsinga milli Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga líkt og gert er ráð fyrir í lögum um húsnæðisbætur.
Ljóst er að sveitarfélög koma til með að greiða áfram út sérstakan húsnæðisstuðning. Húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnun munu jafnan hafa áhrif á þær greiðslur. Til að auðvelda útreikning sveitarfélaga á sérstökum húsnæðisstuðningi er Vinnumálastofnun heimilt að veita upplýsingar um greiðslur húsnæðisbóta og forsendur fyrir útreikningi þeirra til sveitarfélaga.
Í erindi Vinnumálastofnunar er óskað eftir gagnkvæmri miðlun upplýsinga og að koma á tengiliðum til að auðvelda samskipti á milli aðila.

Bæjarráð felur deildarstjóra félagsmáladeildar að hafa samráð um miðlun upplýsinga til Vinnumálastofnunar.