Síldarminjasafnið tilnefnt til Evrópsku safnverðlaunanna.

Á fundi Safnaráðs 2. mars var ákveðið að tilnefna Síldarminjasafnið til Evrópsku safnverðlaunanna 2004. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem íslenskt safn keppir til þessara virtu verðlauna. Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra kunngerði þessa ákvörðun safnaráðs við athöfn í Síldarminjasfninu 26. maí Það er Europian Museums Forum – samstarfsvettvangur evrópska safna – sem hefur í 26 ár staðið að þessum verðlaunum og er tilgangur þeirra að viðurkenna og hvetja þau söfn sem sýnt hafa frábært þróunarstarf í evrópsku safnaumhverfi. Mörg af glæsilegustu söfnum Evrópu hafa hlotið þessi verðlaun.Að baki þessari tilnefningu býr væntanlega það álit að á Síldarminjasafninu fari fram sérstætt og vandað starf – en réttur til þátttöku í þessari keppni byggist þó á því að um nýjung eða verulega nýbreytni sé að ræða á viðkomandi safni. Þar er nýja sýningin í Gránu lykilatriði. Þar er á lokastigi uppsetning gömlu síldarverksmiðjunnar. Tilnefning Síldarminjasafnsins til Evrópsku safnverðlaunanna er safninu afar mikill heiður og ætti að vera öllum bæjarbúum gleðiefni að safnið sé á vissan hátt komið í Evrópukeppni úrvalsliða.