Gönguleið um Siglufjarðarskarð

Vegalengd: 11-12 km
Leið: Skógrækt - Skarðsdalur - Siglufjarðarskarð - Göngudalur - Eggjar - Hraun
Mesta hæð: 620 m
Göngutími 4 - 5 klst.

Siglufjarðarskarð (630 m.) er gengið frá Siglufirði eða að vestan frá Heljartröð skammt norðan Hrauna í Fljótum. Um 15 km. leið eftir gömlum akvegi sem búast má við að sé snjóþungur fyrripart sumars. Skammt norðan skarðsins er Illviðrishnjúkur (895 m), annað hæsta fjall við Siglufjörð.

Í Skarðdal, Siglufjarðarmegin, er skíðasvæði Siglfirðinga og neðst í dalnum er nyrsti skógur á Íslandi, skógrækt Siglfirðinga, gróskumikill og fallegur, og mikið notaður til útivistar.

Mjög kvað að illum anda í Skarðinu sem ásótti menn á fyrri tíð svo að leitað var liðsinnis sr. Þorleifs Skaftasonar í Múla árið 1735. Hinn andheiti guðsmaður hlóð þar altari úr grjóti, vígði staðinn og stefndi öllu illu í Afglapaskarð þar litlu austar. Síðan hefur fararheill fylgt flestum þeim sem á annað borð rötuðu rétta leið og gerðu bæn sína við altarið.

Árið 1946 var bílvegur lagður yfir Siglufjarðarskarð. Fram að því höfðu allir meiriháttar flutningar á fólki og varningi farið um sjóveg til og frá Siglufirði. Mikil samgöngubót var að Skarðsveginum þótt fær væri aðeins fáa máuði á ári. Óhöpp eða slys á hinum nýja vegi eru ekki í frásögur færandi. Reynt er að halda leiðinni opinni fyrir jeppa flest sumur.