Kerahjúkur

Vegalengd: 4,50 km (önnur leiðin)
Leið: Hornbrekka - Hornbrekufjall - Kerahnjúkur.
Mesta hæð: 1097 m
Göngutími 5 - 6 klst. (Báðar leiðir)

Þegar gengið er á Kerahnjúk er gott að leggja upp frá skíðaskálanum í Ólafsfirði og taka stefnuna sunnan lyftu í átt að syðsta hluta klettabeltisins sem er í Hornbrekkufjalli beint upp af Hornbrekku. Þegar komið er upp á brún Hornbrekkufjalls sér í tindinn, sem skagar til himins mikilúðlegur og krefjandi. Gengið er með brúnum og er Brimnesdalur á vinstri hönd. Nokkuð löng leið er á tindinn sjálfan og er fremur bratt efst. Á toppi Kerans er varða og ægifagurt útsýni til allra átta. Gott er einnig að ganga á Kerahnjúk austan frá, er þá lagt upp frá þjóðveginum sunnan Sauðár og gengið fram Sauðdal sem er þægilegur yfirferðar. Þegar komið er fram í botn dalsins er best að stefna í skarðið milli Bassa og Kerahnjúks og þegar upp í það er komið skal fylgja fjallsröðinni á toppinn.