Dalaskarð - Úlfsdalir

Tími: 3 - 6 klst. 

Um Dalaskarð (520 m) til Úlfsdala. Um Úlfsdali liggur þjóðvegurinn til Siglufjarðar. Þar nam Úlfur víkingur land og bjó á Dalabæ. Hann var heygður í hóli niður undir árbakka þar sem hann fylgist með siglingum skipa nú sem fyrr. Helstu fjöll eru Mánárhyrna í norðvestri og Dalaseti (540 m) að austan fyrir miðjum dal rís hinn mikilfenglegi Illviðrishnjúkur (895 m).

Fram yfir miðja öldina var búið á þremur bæjum á Dölum, Máná, Dalabæ og Engidal. Í aldarbyrjun bjuggu allt að 45 manns á Dalabæjunum.

Skömmu áður en komið er að Sauðanesvita, skerst dalverpi, Engidalur , inn milli brattra fjalla. Þar féll mikið snjóflóð á bæinn Engidal árið 1919 og fórst allt heimilisfólkið, 7 manns. Minnisvarði um þennan atburð, hár steindrangur, stendur á bæjarhlaðinu við veginn. Þar skammt frá er Ódáinsakur þar sem vaxa sérstök lífgrös.