Jólatréstendrun í Fjallabyggð

Tendruð voru ljós á jólatrjám í Fjallabyggð um sl. helgi.  Á laugardaginn var kveikt á trénu við Menningarhúsið Tjarnarborg. 
Kirkjukór Ólafsfjarðar söng þrjú lög, börn af leikskólanum Leikhólum og börn úr 1. og 2. bekk grunnskólans sungu einnig þrjú lög. Anna Þórisdóttir formaður markaðs- og menningarnefndar flutti ávarp og svo komu jólasveinarnir í heimsókn.
Það var Jóhanna Margrét Kristinsdóttir fædd 2009 sem fékk það hlutverk að kveikja á jólatrénu í Ólafsfirði.

Á Siglufirði var kveikt á jólatrénu á Ráðhústorginu í gær, sunnudag. Kristinn J. Reimarsson markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar flutti ávarp. Börn af leikskólanum Leikskálar sungu fjögur jólalög og svo kíktu jólasveinarnir einnig við á Siglufirði, sungu, dönsuðu í kringum jólatréð og gáfu börnunum mandarínur, líkt og í Ólafsfirði.  
Það var Þorsteinn Birgis Valdimarsson fæddur 2009 sem tók það að sér að kveikja á jólatrénu á Siglufirði.

Ágætis veður var á báðum stöðum og góð mæting við þessar athafnir og tókust þær vel. 


Leikskólabörn og börn í 1. og 2. bekk grunnskólans í Ólafsfirði sungu.


Kirkjukór Ólafsfjarðar


Anna Þórisdóttir formaður markaðs- og menningarnefndar flutti ávarp.


Fjöldi fólks mætti við tendrun jólatrésins á Siglufirði. (Mynd: Jón Hrólfur Baldursson)


Jólasveinarnir vöktu lukku hjá yngstu kynslóðinni. (Mynd: Jón Hrólfur Baldursson)


Gengið var í kringum jólatréð. (Mynd: Jón Hrólfur Baldursson)