Fréttir

Síldarminjasafnið keppir um evrópsk verðlaun

Síldarminjasafnið á Siglufirði hefur verið metið til samkeppni um verðlaunin "European Museum of the Year Award 2004." Þetta kemur fram í frétt frá safnaráði. Í fréttinni frá safnaráði segir: "Í gær, 3. júlí, kom hingað til lands Dr. Wim van der Weiden, safnstjóri hjá Naturalis, náttúruminjasafni Hollands í Leiden þar í landi og formaður European Museum Forum. EMF stendur árlega fyrir samkeppninni European Museum of the Year Award en safnaráð tilnefndi á dögunum Síldarminjasafnið á Siglufirði til samkeppninnar árið 2004. Mun Dr. Van der Weiden heimsækja Síldarminjasafnið dagana 4. og 5. júlí í því skyni að meta safnið til samkeppninnar. Þátttaka safns í EMYA er bundin þeim skilyrðum að annað hvort sé um að ræða safn sem nýlokið hefur við umfangsmikla uppbyggingu, endurbætur eða viðbætur, eða að um sé að ræða nýtt safn, sem stofnsett hefur verið á sl. tveimur árum. Síldarminjasafnið hlaut tilnefningu sína fyrir þá umfangsmiklu uppbyggingu og viðbætur sem eru í gangi hjá safninu, en nýlokið er einum hluta þessa, uppsetningu bræðsluminjasafns í Gránu."Frétt af visir.is
Lesa meira

Eining-Iðja mótmælir frestun jarðganga

Stjórn verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju á Akureyri hefur harðlega mótmælt ákvörðun stjórnvalda að fresta gerð Héðinsfjarðarganga til ársins 2006. Stjórnin telur að þessi ákvörðun muni hafa verulega slæm áhrif á þau byggðarlög sem ákvörðunin bitnar mest á. Í samþykkt sem gerð var á stjórnarfundi í dag segir: "Gera verður þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir standi við orð sín og byggi upp traust kjósenda sinna, en valti ekki yfir þá eins og gert er í þessu máli, en því miður verður æ algengara að ekkert er að marka málflutning stjórnmálamanna. Engar breytingar hafa átt sér stað í þjóðfélaginu, sem ekki voru auðséðar fyrir kosningar." Þá segir ennfremur í samþykktinni: "Stjórnin vonar að þessi ákvörðun sé ekki forsmekkurinn að efndum stjórnarflokkana í byggðamálum."Frétt af visir.is
Lesa meira

Bæjarráð Siglufjarðar ályktar vegna frestunar framkvæmda við Héðinsfjarðargöng.

Bæjarráð Siglufjarðar samþykkti á fundi sínum í hádeginu í dag eftirfarandi ályktun vegna ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands á frestun framkvæmda við Héðinsfjarðargöng. “Bæjarráð Siglufjarðar lýsir yfir undrun og vonbrigðum yfir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um frestun framkvæmda við Héðinsfjarðargöng sem er reiðarslag fyrir íbúa Siglufjarðar og Eyjafjarðarsvæðisins alls. Þessi einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar gengur þvert á yfirlýsta stefnu hennar í byggðamálum, ekki síst í ljósi yfirlýsinga einstakra ráðherra og þingmanna undanfarnar vikur og mánuði. Héðinsfjarðargöngin hafa verið lengi í undirbúningi og ákvörðun um gerð þeirra tekin á grundvelli rannsókna um arðbærni og mikilvægi fyrir Eyjafjarðarsvæðið og landið allt. Rannsóknir sýna að jarðgöngin eru arðbær samgöngubót og mikilvæg forsenda eins megin markmiðs byggðastefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að styrkja byggð á mið-Norðurlandi sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Markmiðið með gerð Héðinsfjarðarganga er að stækka og efla eitt mikilvægasta atvinnu- og vaxtasvæði á landsbyggðinni þannig að það verði eftirsóknarverður valkostur til búsetu. Það hafa verið bundnar miklar væntingar við þessar framkvæmdir og vonbrigðin eru því gífurleg. Héðinsfjarðargöng eru forsenda fyrir auknu samstarfi og sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð. Þegar hafa verið tekin mikilvæg skref í auknu samstarfi á grundvelli þessara samgöngubóta og viðræður átt sér stað um enn frekara samstarf og sameiningu á svæðinu en með ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú hefur sú vinna verið sett í uppnám. Ekki er hægt að fallast á rök ríkisstjórnarinnar þess efnis að framkvæmdum verði að fresta vegna þenslu. Íbúar Eyjafjarðarsvæðisins hafa ekki orðið varir við umrædda þenslu og það er ekkert sem bendir til að efnahagslegt umhverfi þjóðarbúskapsins hafi breyst svo á tveimur mánuðum að það gefi tilefni til endurskoðunar og frestunar á þessum mikilvægu samgöngubótum. Slík endurskoðun hefði þá fremur átt að leiða til flýtingar verks en seinkunar. Bæjarráð Siglufjarðar fer fram á viðræður við forystumenn ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra og utanríkisráðherra, nú þegar og gerir jafnframt þær kröfur til þingmanna kjördæmisins að þeir vinni með sveitarstjórnarmönnum og íbúum Eyjafjarðarsvæðisins að því að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína.”Bæjarráð Ólafsfjarðar samþykkti á fundi sínum í dag eftirfarandi bókun:"Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um frestun framkvæmda við Héðinsfjarðargöng, sem tilkynnt var í gær er gríðarlegt áfall fyrir alla íbúa við Eyjafjörð. Þessi einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar gengur þvert á yfirlýsta stefnu hennar í byggðamálum og kemur bæjarráði Ólafsfjarðar í opna skjöldu, sér í lagi í ljósi yfirlýsinga einstaka ráðherra og þingmanna stjórnarflokkanna allt síðastliðið ár, að ekki sé talað um undanfarnar vikur og mánuði. Héðinsfjarðargöng hafa verið lengi í undirbúningi og var ákvörðun um gerð þeirra tekin á grundvelli rannsókna um arðbærni og mikilvægis þeirra fyrir Eyjafjarðarsvæðið og landið allt. Allar rannsóknir sýna að jarðgöngin eru arðbær samgöngubót og ein meginforsenda þess að það markmið byggðastefnu ríkisstjórnarinnar, að styrkja Mið-norðurland sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið náist. Markmiðið með gerð Héðinsfjarðarganga er að stækka og efla mikilvægasta atvinnu- og vaxtarsvæði á landsbyggðinni þannig að það verði eftirsóknarverður valkostur til búsetu. Miklar væntingar eru bundnar við þessa framkvæmd og vonbrigðin því gífurleg. Héðinsfjarðargöng eru mikilvæg forsenda fyrir auknu samstarfi og sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð. Sveitarstjórnarmenn í Eyjafirði hafa þegar tekið fyrstu skrefin í auknu samstarfi á grundvelli þessara samgöngubóta og hafa uppi áætlanir um enn frekara samstarf og sameiningu en með ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefur sú vinna verið sett í uppnám. Það var nógu erfitt fyrir íbúa Ólafsfjarðar að sætt a sig við fyrstu frestunina en þeir teystu stjórnvöldum og löguðu sig að breyttum aðstæðum. Af hverju skyldu þeir gera það aftur? Bæjarráð Ólafsfjarðar fellst ekki á þau rök ríkisstjórnarinnar að framkvæmdum verði að fresta nú vegna þenslu. Íbúar svæðisins hafa ekki orðið varir við umrædda þenslu og ekkert bendir til þess að efnahagslegt umhverfi í þjóðarbúskapnum hafi breyst svo á tveimur mánuðum að það gefi nú skyndilega tilefni til endurskoðunar og frestunar á þessari mikilvægu samgöngubót. Slík endurskoðun hefði þá fremur átt að leiða til flýtingar verksins en seinkunar. Bæjarráð Ólafsfjarðar treystir því Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnin láti ekki íbúa hér á Tröllaskaganum bera herkostnaðinn af framkvæmdum annars staðar á landinu. Bæjarráð Ólafsfjarðar fer fram á viðræður við forystumenn ríkisstjórnarinnar, forsætis- og utanríkisráðherra, nú þegar og gerir jafnframt þær kröfur til þingmanna kjördæmisins að þeir vinni með sveitarstjórnarmönnum og íbúum Eyjafjarðar að því að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína."
Lesa meira

Héðinsfjarðargöngum frestað!

Samgönguráðherra, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, hefur ákveðið að öllum tilboðum í gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar um Héðinsfjörð verði hafnað. Ástæður þessa eru þær að ekki þykir ráðlegt að fara í þessar framkvæmdir í því þensluástandi sem nú er í uppsiglingu í þjóðfélaginu, miðað við þær miklu framkvæmdir sem nú eru hafnar og framundan eru á austurlandi, að því er fram kemur í frétt frá samgöngumálaráðuneytinu.Frétt af mbl.is
Lesa meira

Þjóðlagahátíð 2003 hefst á morgun, 2. júlí.

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði verður haldin í fjórða sinn sumarið 2003 frá 2.-6. júlí. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á söngdansa eða vikivaka sem nutu mikilla vinsælda á Íslandi. Hátíðin ber þess einnig merki að öld er liðin frá því Norðmenn lönduðu fyrstu síldinni á Siglufirði. Harðangursfiðluhljómsveit frá Bærum í Noregi mun setja sterkan svip á hátíðina auk fjölda annarra listamanna, innlendra og erlendra. Sænsk-íslenski flokkurinn Draupnir setur hátíðina með flutningi vikivaka í Siglufjarðarkirkju miðvikudaginn 2. júlí kl.20.00. Námskeið standa yfir 3.-5. júlí. Laugardagskvöldið 5. júlí verður uppskeruhátíð og sunnudaginn 6. júlí verða hátíðartónleikar í Siglufjarðarkirkju.Boðið verður upp á námskeið í búlgörskum þjóðlögum undir stjórn hins heimsfræga Chris Speed, rímum, dönskum þjóðdönsum og raddspuna. Þá verða námskeið í silfursmíði, refilsaumi, ullarþæfingu og sögu og umhverfi SiglufjarðarHátíðin er haldin með tilstyrk Siglufjarðarkaupstaðar, Menningarborgarsjóðs, Menntamálaráðuneytis og Menningarsjóðs KEA.
Lesa meira

Stórleikur í 2. deild karla í knattspyrnu á fimmtudag.

N.k. fimmtudag fer fram stórleikur á Siglufjarðarvelli í 2. deild karla í knattspyrnu þegar KS tekur á móti liði Tindastóls frá Sauðárkróki. Leikir þessara félaga hafa undanfarin ár verið hörkuleikir og um sannkallaðan grannaslag að ræða. KS sigraði Tindastól tvívegis á síðasta ári í deildarkeppninni en Tindastóll hafði hins vegar betur í bikarleik liðanna árið 2002. KS er nú 3-4. sæti 2. deildar með 13 stig en Tindastóll er í 8. sæti deildarinnar með 4 stig. Í síðasta leik vann KS 1-0 sigur á Selfossi en Tindastóll tapaði fyrir Víði 1-0.Örugglega verður um hörkuleik að ræða og eru allir sem möguleika hafa hvattir til þess að mæta og hvetja sína menn.
Lesa meira

Fréttir af Síldarævintýri

Theodór Júlíusson sem tekið hefur við umsjón með Síldarævintýri segir að nú í sumar verði dagskráin með nokkuð hefðbundnu sniði og stefnt sé að því að heimamenn komi að hátíðinni eins mikið og mögulegt er. Þeir sem koma fram á hátíðinni eru: Hljómar “frægasta íslenska hljómsveit allra tíma”; Miðaldamenn með Sturlaug í fararbroddi; hljómsveitin Von frá Sauðárkróki;hljómsveitin Stormar spilar og einhverjir félagar úr Harmonikkusveitinni munu þenja nikkurnar.´Kappreiðar verða vonandi haldnar á nýjum velli hestamannafélagsins en þá munu góðhestar og knapar heimsækja Siglufjörð. Einnig er von til að Fílapenslar komi saman og skemmti eins og oft áður. Hlöðver Sigurðsson mun gleðja tónelska með því að syngja nokkur létt einsöngslög og aríur. Leikfélag Siglufjarðar mun sjá um barnadagskrá og sprell-leiktæki verða á staðnum. Síldarminjasafnið verður að sjálfsögðu opið og þar verður söltun með öllu því fjöri sem síldarstúlkurnar eru þekktar fyrir. Að vanda verður messað í Hvanneyrarskál og Gústa guðsmanns verður minnst.Einnig er fyrirhugað að hafa brennu og brennusöngva og aldrei að vita nema sprengjuglaðir björgunarsveitarmenn töfri viðstadda með flugeldasýningu. Gesti má minna á frábær tjaldstæði í hjarta bæjarins og inni í dal. Sundlaugin og verslanir verða opnar mun lengur en vant er.Enn á eftir að ræða við nokkra aðila um að koma fram og skemmta en stefnt er að því að hátíðin verði sem glæsilegust. Byggt á viðtali í Hellunni.
Lesa meira

Borgarnesferð yngri flokka KS

Á morgun halda á milli 40-50 KS ingar til Borgarness til þess að taka þátt í Búnaðarbankamótinu sem þar er haldið. Keppendur eru í 3. flokki kvenna og 4., 5. og 6. flokki karla.Mótið er það fyrsta sem KS - ingar taka þátt í á þessu sumri en síðar í sumar verður farið á Gullmótið í Kópavogi, Nikulásarmót á Ólafsfirði, Strandamót og Króksmót auk þess sem allir kvennaflokkar taka þátt í Pæjumótinu á Siglufirði.Það er því nóg um að vera hjá yngri flokkunum í sumar og ánægjulegt að foreldrar fara í flestum tilfellum með börnum sínum á mótin og taka þar með virkan þátt.Af heimasíðu KS
Lesa meira

Beitir með fyrstu sumarloðnuna

Beitir NK-123 fékk fyrstu sumarloðnuna á Halamiðum síðastliðna nótt. Skipið er á landleið með með fullfermi, um 1150 tonn, og reiknað er með að landa á Siglufirði. Loðnan veiddist norðvestur af Vestfjörðum á svipuðum slóðum og veiðin byrjaði í fyrra. Hefja mátti loðnuveiðar á sumarvertíð 20. júní og þá var farið að svipast um eftir loðnunni austan við landið. Þar sást hún hinsvegar ekki og því var haldið á Halamið. Fá skip eru að veiðum en búast má við að þeim fjölgi þegar fréttir berast af aflabrögðum.Frétt af heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Lesa meira

Framkvæmdir við Gránugötu og Tjarnargötu

Eins og bæjarbúar hafa orðið varir við standa nú yfir miklar framkvæmdir við Gránugötu og Tjarnargötu. Verkið felst í jarðvegsskiptum, endurnýjun lagna, malbikun gatna og steypingu gangstétta. Einnig er í verkinu bygging mikils skolpdælubrunns sem staðsettur verður vestan Egilssíldar og lagning nýrrar útrásar til austurs norðan bensínstöðvarinnar. Þegar framkvæmdum lýkur verður hætt að veita skolpi í Smábátahöfnina.Gránugatan niður að höfn telst þjóðvegur í þéttbýli og því greiðir Vegagerðin hluta kostnaðar við framkvæmdina.Verktaki í verkinu er BÁS ehf. á Siglufirði og er samningsupphæð kr. 58.624.748,-.Verkið hefur gengið mjög vel, er á áætlun, og á að vera lokið eigi síðar en 15. okt. n.k. skv. útboðsgögnum.
Lesa meira