Fréttir

Síldarævintýrið 2003 - Hátíðin í ár verður sérlega glæsileg

Þegar Siglufjörður var síldarhöfuðstaður heimsins unnu þúsundir verkamanna og kvenna við síldina og nokkurs konar gullgrafarastemming var ríkjandi Íbúafjöldinn var eins og í stórborg, allstaðar líf og fjör. Þessa stemmingu er ætlunin að reyna að endurskapa með virkri þátttöku heimamanna og gesta. Hátíðin núna er forsmekkur af enn stærri hátíðarhöldum sem verða sumarið 2004 en þá er von á tignum gestum til Siglufjarðar s.s. forseta Íslands og Hákoni krónprins Noregs og konu hans Mette – Marit. Þeir sem koma fram á Síldarævintýrinu nú í sumar eru m.a.: Hljómar “frægasta íslenska hljómsveit allra tíma” Miðaldamenn með Sturlaug í fararbroddi, hljómsveitin Stormar spilar og félagar úr Harmonikkusveitinni munu þenja nikkurnar. Hljómsveitirnar The Hefners og Von munu leika fyrir dansi, einnig munu hin frábæru Eva Karlotta, Þórarinn og ‘Omar skemmta. Dansleikir verða haldnir bæði utan og innandyra, og skemmtidagskrá verður á torginu jafnt dag sem kvöld. Kappreiðar verða haldnar á nýjum velli hestamannafélagsins og munu stórkostlegir hestar og knapar heimsækja Siglufjörð. Hestaleiga verður í gangi alla helgina. Fílapenslar koma saman eftir nokkurt hlé og skemmta eins og þeim einum er lagið, Hlöðver Sigurðsson mun gleðja tónelska með því að syngja nokkur létt einsöngslög og aríur. Leikfélag Siglufjarðar mun sjá um barnadagskrá og Sprell-leiktæki verða á staðnum. Síldarminjasafnið verður að sjálfsögðu opið og þar verður söltun með öllu því fjöri sem síldarstúlkurnar eru þekktar fyrir. Að vanda verður messað í Hvanneyrarskál og Gústa guðsmanns verður minnst. Einnig er fyrirhugað að hafa brennu og flugeldasýningu en það fer nokkuð eftir veðri. Hið árlega stjóstangveiðimót Sjósigl verður að venju haldið um verslunarmannahelgina. A Siglufirði eru frábær tjaldstæði í hjarta bæjarins og inni í dal. Sundlaugin verður opin frá morgni til kvölds og verslanir hafa rúman opnunartíma. ‘Agætur golfvöllur er til staðar og skemmtilegar gönguleiðir við allra hæfi í næsta nágrenni og hægt verður að aka yfir hið stórfenglega Siglufjarðarskarð. Við bjóðum landsmenn velkomna til Siglufjarðar. Þeim sem vilja fræðast nánar um Siglufjörð og Síldarævintýrin, fyrr og nú, er bent á heimasíðu bæjarins www.siglo.is Að endingu skal hér bent á að Siglfirðingum hefur verið boðin þátttaka í menningarnótt í Reykjavík þann 16. ágúst Hafi fjölmiðlar áhuga á að fjalla frekar um hátíðina eða að fá ítarlegri upplýsingar þá vinsamlegast hafið samband við Theodór Júlíusson síma 898-5495
Lesa meira

Annríki í fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar

Mikið annríki hefur verið hjá starfsmönnum í fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar undanfarið en fjórar af fimm verksmiðjum fyrirtækisins hafa nú samtals tekið á móti tæplega 150 þúsund tonnum af loðnu, kolmunna og síld. Grænlenska loðnuskipið Siku er nýkomið til Raufarhafnar með fullfermi af loðnu, um 1.200 tonn og norskt loðnuskip landaði 600 tonnum á Raufarhöfn í gær. Súlan landaði 950 tonnum af loðnu á Siglufirði í gær úr sínum síðasta loðnutúr að þessu sinni. Fimm norsk loðnuskip eru ýmist komin eða væntanleg til Siglufjarðar með loðnu, samtals um 3.200 tonn. Töluverðu af kolmunna var landað á Seyðisfirði í gær en Huginn, Svanur, Ásgrímur Halldórsson og Bjarni Ólafsson lönduðu þar um 3.500 tonnum. Unnið er að hreinsun verksmiðjunnar í Neskaupstað og stöðvast vinnsla þar á meðan en reiknað er með að því ljúki í kvöld. Á Siglufirði er nú búið að taka á móti ríflega 25.000 tonnum af loðnu og á Raufarhöfn hefur verið tekið á móti tæpum 11.000 tonnum af loðnu. Á Seyðisfirði eru um 41.000 tonn af loðnu, kolmunna og síld komin á land og um 67.000 tonn eru komin á land í Neskaupstað; loðna, kolmunni og síld. Frétt af local.is
Lesa meira

Ömurleiki ráðherra

Eins og fólk hefur orðið vart við á undanförnum dögum hefur verið tekin ákvörðun um það í ríkisstjórn að fresta framkvæmdum við Héðinsfjarðargöng til ársins 2006. Ákvörðun þessi hefur vakið sterk viðbrögð á Eyjafjarðarsvæðinu, sérstaklega á Siglufirði og í Ólafsfirði og þykir fólki það illa svikið miðað við þær yfirlýsingar sem stjórnmálamenn gáfu stuttu fyrir kosningar. Eðlilegt er að þessi ákvörðun veki eins sterk viðbrögð og raun ber vitni þar sem hver stjórnarþingmaðurinn á fætur öðrum fullyrti hér á Siglufirði að búið væri að taka ákvörðun um framkvæmdir við göngin og fólk þyrfti í raun ekki að ræða það frekar, tímaáætlanir stæðust og búið væri að bjóða verkið út. Svo sannfærandi voru stjórnarþingmenn að þeir urðu nær því pirraðir þegar þeir voru spurðir út í málið, þetta átti allt að vera á hreinu og kjósendur þyrftu ekki sífellt að vera spyrja út í göngin.Skiptar skoðanir hafa verið um umrædda framkvæmd þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á arðsemi hennar og mikilvægi fyrir allt Eyjafjarðarsvæðið en framkvæmdin hefur m.a. verið talin forsenda aukinnar samvinnu og sameiningar sveitarfélaga við utanverðan Eyjafjörð. Það er hins vegar ekki framkvæmdin sem hér er til umræðu heldur málflutningur og smekkleysa ráðherra ríkisstjórnarinnar. Ákvörðun um frestun framkvæmda kom eins og köld vatnsgusa framan í íbúa þessa svæðis enda búið að margítreka það í kosningabaráttunni að málið væri í höfn, a.m.k. ef stjórnarflokkarnir héldu völdum.Samgönguráðherra kemur fram með þau rök að framkvæmdum sé frestað vegna fyrirsjáanlegrar þenslu á næstu árum. Þessi rök eru afar slök því allar upplýsingar lágu fyrir löngu fyrir kosningar og lítið hefur breyst í efnahagslífi þjóðarinnar á undanförnum tveimur mánuðum. Þegar svo búið er að benda ráðherranum á þessa rökleysu þá kýs hann að grípa í enn fáranlegri rök með því að segja að slíkar ákvarðanir þurfi að endurskoða frá mánuði til mánaðar! Slíkur málflutningur er móðgun við kjósendur og ef ráðherra hefur ætlast til þess að einhver myndi trúa slíku er hann hreinlega að sýna fólkinu í landinu lítilsvirðingu. Fjármálaráðherra gengur þó enn lengra í vitleysunni og er málflutningurinn algerlega fráleitur frá varaformanni stærsta stjórnmálaflokks landsins og væntanlegum formanni þess flokks. Ráðherrann var minntur á fullyrðingar sínar á fundi á Siglufirði stuttu fyrir kosningar þess efnis að ekkert gæti komið í veg fyrir framkvæmdirnar nema ef Sjálfstæðisflokkurinn héldi ekki völdum. Hans fyrstu viðbrögð voru að segja að ef Samfylkingin hefði komist til valda þá hefðu framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng nær örugglega verið alveg slegnar af! Viðbrögðin dæma sig sjálf og skynsamur maður sem ráðherrann er sá það auðvitað strax að það væri ófært fyrir hann að afgreiða málið með þessum hætti. Það næsta sem fjármálaráðherra landsins dettur þá í hug að gera er aumkunarvert og honum til vansa á allan hátt. Fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, kýs nefnilega að gera Siglfirðinga tortryggilega með því að fullyrða að hann hafi aldrei lofað göngum árið 2004 á fundinum á Siglufirði. Allir þeir sem staddir voru á fundinum, andstæðingar og samherjar ráðherrans í stjórnmálum, geta vitnað um og margir hafa þegar gert það, að umræðurnar um göngin á fundinum voru allar á þann veg að framkvæmdir hæfust árið 2004 og ekkert annað kom þar fram. Að einn af æðstu mönnum þjóðarinnar svíki kosningaloforð í svo mikilvægu máli er grafalvarlegt mál en að sparka svo í liggjandi mann með því að gera Siglfirðinga tortryggilega með þeim hætti sem maðurinn gerir er hreint út sagt ólíðandi og er ráðherranum vorkunn að telja sig knúinn til að leggjast svo lágt í stað þess að greina frá staðreyndum málsins.Viðbrögð fjármálaráðherra og samgönguráðherra við gagnrýni á ákvörðun um frestun eru þau aumkunarverðustu og ótrúverðugustu sem undirritaður hefur orðið vitni að hjá ráðamönnum þjóðarinnar í langan tíma og er þó af nokkru að taka í gegnum tíðina. Er ekki hægt að ætlast til annars en að ráðherrarnir svari fyrir mál sitt á skynsamlegri nótum og gefi Siglfirðingum og öðrum þeim sem bundu vonir við að kosningaloforð stæðu skýringar á þessum viðsnúningi á aðeins tveimur mánuðum. Skárri kostur væri þó að umræddir ráðherrar sæju sóma sinn í því að segja af sér vegna hreinna ósanninda í garð kjósenda og fólksins í landinu. Málið snýst einfaldlega um það að stjórnmálamenn kusu að fara með blekkingar og ósannindi fyrir kosningar til þess að ná í atkvæði og er það alvarlegt mál. Stjórnmálamenn sem haga sér með þessum hætti eru algerlega rúnir öllu trausti og er til marks um alvarleika málsins fyrir þá að uppi eru hugmyndir um að leggja niður jafnt Framsóknarfélögin og Sjálfstæðisfélögin á Siglufirði. Halda menn virkilega að svo væri komið ef félagsmenn viðkomandi félaga væru ekki sannfærðir um svik og ósannindi í sinn garð?Það er alveg sama hvað forsætisráðherra segir svo nú um að framkvæmdir hefjist á kjörtímabilinu, það trúir honum engin.Eftir Þóri Hákonarson
Lesa meira

Maður og verksmiðja. Dagskrá til heiðurs Þorgeiri Þorgeirsyni

Maður og verksmiðja, dagskrá til heiðurs Þorgeiri Þorgeirsyni verður í Í Gránu, bræðsluhúsi Síldarmynjasafnsins á Siglufirði laugardaginn 12. júlí 2003.Dagskráin hefst kl. 13:00 með vígslu hvíta tjaldsins með sýningu á kvikmynd Þorgeirs, Maður og verksmiðja. Kvikmyndin mun framvegis verða sýnd á hvíta tjaldinu í Gránu, bræðsluhúsi Síldarminjasafnsins meðan safnið er opið.Í þessum fyrsta hluta dagskrárinnar verður einkum fjallað um Siglufjörð og mótunarár Þorgeirs sem og áhrifavalda.Kl. 15:00 verður síldarsöltun á Síldarminjasafninu, músík og dans.Kl. 16:30 verða kaffi og kleinur í Gránu.Kl. 17:00 Er komið að öðrum hluta dagskrárinnar þar sem einkum verður beint ljósum á rithöfundinn og leikhúsmanninn Þorgeir. meðal annars verður sýnd kvikmynd Þorgeirs og Guðbergs Bergssonar Feigðarsurg.Kl. 18:30 verður boðið upp á kjötsúpu á Gránulofti.Kl. 19:30 hefst síðasti hluti dagskrárinnar þar sem kvikmyndagerðarmaðurinn Þorgeir er í brennidepli. Þar verða meðal annars sýnd heimildamyndin Samræða um kvikmyndir sem og kvikmynd Þorgeirs Grænlandsflug. Restina rekur síðan einstök heimildamynd um ísland frá árinu 1938 eftir danska kvikmyndagerðarmanninn Kaptein Dam.Kl. 23:00 verður miðnætursigling um fjörðinnFjölmargir listamenn og fræðimenn munu koma fram í dagskránni sem fléttast saman í tali, tónum og kvikum myndum. Meðal þeirra sem koma fram eru Anna Sigríður Einarsdóttir leikkona, Ari Halldórsson kennari, Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur, Eggert Þorleifsson leikari, Gunnsteinn Ólafsson fiðluleikari, Hákon Már Oddsson kvikmyndagerðarmaður, Tómas Gunnarsson lögfræðingur, Viðar Eggertsson leikstjóri, Vilborg Dagbjartsdóttir skáld, Þorsteinn Jónsson kvikmyndagerðarmaður og Örlygur Kristfinnsson safnstjóri síldarminjasafnsins. Þorgeir Þorgeirson er heiðursgesturSunnudaginn 13. júlí verða kvikmyndirnar Maður og verksmiðja og Samræða um kvikmyndir sýndar til skiptis á hvíta tjaldinu í gránu frá kl. 10 til 18
Lesa meira

Mestur loðnuafli borist til Siglufjarðar

Loðnuveiðin hefur gengið vel undanfarna daga, en síðasta sólarhringinn hefur heldur hægt á veiðinni.
Lesa meira

Héðinsfjarðargöngum verður frestað!

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um frestun framkvæmda við Héðinsfjarðargöng verður ekki breytt þrátt fyrir hávær mótmæli íbúa á norðanverðu Eyjafjarðarsvæðinu. Hins vegar verður verktími við göngin styttur miðað við fyrri áætlanir og því er gert ráð fyrir að opnunartími þeirra seinki aðeins um eitt ár í stað tveggja eins og frestun ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir. Verkið verður boðið út að nýju árið 2005.Frétt af textavarp.is
Lesa meira

"Lífið á Sigló" Ljósmyndavefur með fréttatengdu efni um Siglufjörð opnaður.

Opnaður hefur verið vefurinn "Lífið á Sigló" sem er ljósmyndavefur með fréttatengdu efni um Siglufjörð. Vefurinn er á slóðinni ljosmyndasafn.com en Steingrímur Kristinsson hefur umsjón með vefnum.Steingrími er óskað til hamingju með fínan miðil og vonandi skoða sem flestir þennan vettvang fyrir fréttir úr bæjarlífinu og margt fleira.
Lesa meira

Bæjarráð Siglufjarðar hefur samþykkt að boða til opins borgarafundar

Bæjarráð Siglufjarðar hefur samþykkt að boða til opins borgarafundar um þá ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að fresta framkvæmdum við Héðinsfjarðargöng og þær afleiðingar sem sú ákvörðun hefur fyrir íbúana og byggðina. Til fundarins verður boðið öllum þingmönnum kjördæmisins.Ekki liggur fyrir hvenær fundurinn verður haldinn en verið er að vinna að undirbúningi.
Lesa meira

Verkalýðsfélagið Vaka ályktar vegna Héðinsfjarðarganga

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi stjórnar Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirðisem haldinn var fimmtudaginn 3. júlí kl. 18:00 á skrifstofu félagsins að Suðurgötu 10 á Siglufirði:Stjórn Verkalýðsfélagsins Vöku fordæmir þau vinnubrögð stjórnvalda að slá framkvæmdum við Héðinsfjarðargöng á frest, eftir að hafa marglofað í kosningabaráttunni á liðnum vetri, Siglfirðingum og öðrum íbúum á utanverðum Tröllaskaga að staðið yrði við fullyrðingar um samgöngubætur með Héðinsfjarðargöngum.Jafnvel mestu efasemdarmenn voru farnir að trúa því að af framkvæmdum yrði og létu þar með draga sig á asnaeyrunum, enda vart hægt að láta sér detta í hug að til væru stjórnvöld sem væru svo ómerkileg að ganga um héruð og ljúga framan í opið ginið á kjósendum um jafn mikilvægt málefni og þetta. Einnig hafa þessi sömu stjórnvöld dregið á tálar, fjölmarga verktaka og alla þá aðila sem komið hafa að undirbúningi málsins og bundið við það miklar væntingar.Það hefur ekkert breyst hvað varðar útlit fyrir þenslu í hagkerfinu, frá því að ákvörðun um virkjun og álver á Austurlandi var tekin og því er það ómerkilegur fyrirsláttur að ætla að afsaka þessa ákvörðun með ofþenslu. Orð samgönguráðherra á þá leið að bregðast þurfi við breytingum í hagkerfinu frá mánuði til mánaðar eru hreint og beint sorgleg, en lýsa stefnuleysi stjórnvalds, sem grípur bara næsta hálmstrá til að réttlæta vondar og lúalegar ákvarðanir. Stjórn Vöku telur að ráðherrar samgöngu, byggða og fjármála séu ekki störfum sínum vaxnir, ef þeir telja réttlætanlegt að koma svona fram við kjósendur.Íbúar við utanverðan Eyjafjörð hafa bundið miklar vonir við bætt búsetuskilyrði, með betri samgöngum og aukinni samvinnu, sem Héðinsfjarðargöng eru forsenda fyrir. Siglfirðingar hafa talið að með því að verið er að verja milljörðum króna til að verja byggðina fyrir snjóflóðum með byggingu varnargarða, hlytu stjórnvöld að vera að senda þau skilaboð að þau teldu byggð í Siglufirði skipta máli.Þeir stjórnmálamenn sem nú hafa orðið berir að ósannindum, geta ekki ætlast til þess að við trúum því að Héðinsfjarðargöng verði boðin út árið 2006 og að í raun sé ekki verið að slá þessa framkvæmd af.Heiðarleg stjórnvöld sem bera virðingu fyrir sjálfum sér og kjósendum sínum haga sér ekki með þessum hætti. Heiðarleg stjórnvöld setja fram stefnu í atvinnu- efnahags- og byggðamálum sem þolir sveiflur frá einum mánuði til annars og þolir dagsbirtu, bæði fyrir og eftir kosningar.
Lesa meira

Nýtt umræðusvæði opnað á heimasíðu Siglufjarðarkaupstaðar.

Nýtt umræðusvæði hefur verið opnað á heimasíðu Siglufjarðarkaupstaðar. Svæðið er með nokkru öðru sniði en áður og nú þurfa notendur að skrá sig inn með nafni, kennitölu og póstfangi. Skráningin er mjög einföld og ætti ekki að vefjast fyrir neinum. Þegar viðkomandi skráir sig inn koma fram reglur um notkun og þarf að staðfesta þær til þess að notendanafn verði virkt.Þess má geta að viðkomandi notandi þarf ekki að nota eigið nafn á umræðusvæðinu, þ.e. hann getur notast við notendanafn, en hins vegar gerir skráning það að verkum að ávallt er vitað hvaða einstaklingur er að skrifa i hvert skipti.Reglur umræðusvæðisins eru eftirfarandi:Á umræðusvæðinu er gerð sú krafa að menn hagi sér samkvæmt góðum siðum og öllu efni sem þykir brjóta í bága við það verður umsvifalaust hent út. Skítkast, rógburður, illgirni og dónaskapur gagnvart einstaklingum verður ekki liðinn. Óheimilt er að senda efni sem brýtur gegn lögum og almennu velsæmi, er ærumeiðandi, ósæmandi á einhvern hátt eða hefur að geyma óstaðfestar ásakanir eða dylgjur í garð einstaklinga eða lögaðila.Ef upp koma mál sem þykja tilefni til kæru, fara þau beint til lögreglu og munu þeir sjá um að þau mál fara rétta leið í kerfinu.Vonast er til að nýtt fyrirkomulag mælist vel fyrir og verði notað til umræðu þau málefni sem fólk telur skipta máli.
Lesa meira