Fréttir

Viðurkenning fyrir hönnun.

Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt og teiknistofa hans, Landslag ehf., fengu um helgina sérstaka viðurkenningu (special mention) fyrir hönnun fyrsta áfanga snjóflóðavarna á Siglufirði í evrópskri samkeppni á vegum arkitektasamtaka og arkitektaskóla á Spáni. Alls voru tæplega 500 verkefni send til keppninnar og 14 þeirra kepptu til úrslita í Barcelona. Höfundar verkanna kynntu þau fyrir 350 manna ráðstefnu og alþjóðlegri dómnefnd sem ákvað að tvö verk skyldu deila með sér sigurlaunum; Paolo Burgi frá Sviss fyrir gönguleiðir og útsýnisstaði við Locarno, og Catherine Mosbach frá Frakklandi fyrir grasagarð í Bordeaux. Siglufjarðarverkefnið fékk svo sérstaka viðurkenningu í þessari þekktu og virtu keppni landslagsarkitekta. Reynir Vilhjálmsson og Þráinn Hauksson, framkvæmdastjóri Landslags ehf., veittu viðurkenningunni viðtöku. Þeir segjast tæplega búnir að átta sig á því enn að verkefnið þeirra hafi komist í fremstu röð í keppninni. Árangurinn sé framar björtustu vonum og mikill heiður fyrir Landslag ehf. og íslenskan landslagsarkitektúr yfirleitt. Gefin verður út vönduð bók um keppnina og fjallað þar sérstaklega um verkefnin þrjú sem fengu verðlaun og viðurkenningu. Ýmis fagrit landslagsarkitekta í Evrópu hafa þegar óskað eftir að kynna Landslag ehf. og snjóflóðavarnirnar á Siglufirði. Það sagði ennfremur sína sögu að þrír af sex þátttakendum í hringborðsumræðum í lok evrópsku landslagsarkitektasamkomunnar í Barcelona viku sérstaklega að Siglufjarðar-verkefninu í máli sínu.Verðlaunin kallast Rosa Barba-European Landscape Prize og eru nú veitt í þriðja sinn. Snjóflóðavarnirnar sem hér um ræðir eru tveir leiðigarðar, Stóri-Boli og Litli-Boli, sem reistir voru neðan Jörundarskálar og Strengsgilja á Siglufirði á árunum 1998 og 1999. Nú er unnið að framkvæmd annars áfanga varnarvirkja á Siglufirði, þvergarða ofan byggðar.
Lesa meira

Góður árangur Siglfirðinga á fatahönnunarkeppni Grunnskólanna.

Sunnudaginn 9. nóvember var Fatahönnunarkeppni Grunnskólanna haldin í Kringlunni í Reykjavík. Frá Grunnskóla Siglufjarðar fóru 13 keppendur. Sjö stúlkur úr 8.bekk, tvær úr 9.bekk og fjórar úr 10.bekk. Bara það að þær voru valdar til að sýna flíkurnar sínar gerði þær allar af sigurvegurum.Verðlaun í keppninni voru í formi aukinna möguleika í framtíðinni og hlutu stelpurnar frá Siglufirði eftirfarandi verðlaun: Kjóll í fjöldaframleiðslu: Pálína Dagný Guðnadóttir úr 9.bekk. Þáttaka í Iceland Fashion Week í febrúar, þær fara sem hönnuðir: Sigurbjörg Hildur Steinsdóttir, 10.b. Sunna Lind Jónsdóttir, 10.b. Pálína Dagný Guðnadóttir, 9.b. Stefanía Regína Jakobsdóttir, 8.b. Þriðju verðlaun fyrir hár og förðun: Pálína Dagný Guðnadóttir, 9b.Frábær árangur hjá stelpunum og við óskum þeim öllum að sjálfsögðu til hamingju með árangurinn.
Lesa meira

Hákon prins og Mette Marit til Siglufjarðar

Hákon Noregsprins og eiginkona hans Mette Marit, sem ber nú barn þeirra undir belti, munu að öllum líkindum heimsækja Ísland í næsta sumar.Meðal þeirra viðburða sem ræddir hafa verið er möguleg heimsókn norður á Siglufjörð, í tilefni af 100 ára afmæli síldarsöltunar þar í bæ, en Norðmenn áttu stóran þátt í tilkomu síldarsöltunar á Siglufirði. Yrðu Hákon og Mette þá heiðursgestir síldarhátíðarinnar á Siglufirði, sem haldin er síðustu helgina í júlí. Vissrar óvissu gætir þó með það hvenær hjónin komast til Íslands og óljóst hvort heimsókn þeirra hitti á hátíðina þótt að því sé stefnt. Að sögn Örnólfs Thorssonar, skrifstofustjóra skrifstofu forseta Íslands, liggja nánari atriði, svo sem tímasetningar og dagskrá, enn ekki fyrir. Frétt af mbl.is
Lesa meira

Allir Siglfirðingarnir fóru í úrslit í fatahönnunarkeppni

Allir 13 nemendurnir úr 7., 8., 9. og 10. bekk í Grunnskóla Siglufjarðar sem tóku þátt í undankeppni fatahönnunarkeppni grunnskólanna komust í úrslit í keppninni, en alls komust 68 í lokakeppnina af öllu landinu. Siglfirðingarnir 13 sendu inn 23 hugmyndir í keppnina. Grunnskólar af öllu landinu taka þátt í hönnunarkeppninni, sem byggist á því að hanna og teikna föt. Fyrir úrslitakeppnina, sem verður í Kringlunni næsta laugardag, eiga nemendur svo að sauma fötin.Að sögn Kolbrúnar Aðalsteinsdóttur, sem stendur fyrir keppninni, bárust mörg hundruð teikningar að fötum frá skólum hvaðanæva af landinu. „Það er greinilega mikil gróska í fatahönnun á Siglufirði,“ sagði Kolbrún um þetta háa hlutfall teikninga frá Siglufirði í úrslitum. Hún sagði að teikningarnar þaðan hefðu almennt verið það góðar að ekki hefði verið hægt annað en nota þær allar.Það er Guðný Fanndal, kennari á Siglufirði, sem stóð að framlagi nemenda þaðan. Guðný sagði að mikill áhugi hefði verið á þessari keppni en þema hennar nú er málshátturinn „nýta þú mátt þótt nóg hafir“. Það eru því reglur varðandi saumaskapinn á fötunum að engin aðkeypt efni séu notuð. „Við erum þess vegna að sauma úr sturtuhengjum, gömlum gallabuxum og öðru sem okkur dettur í hug að nýta,“ sagði Guðný. Þess má geta að n.k. föstudag mun tveir þátttakendur frá Siglufirði, Sigurbjörg Steinsdóttir og Pálína Dagný Guðnadóttir koma fram í Íslandi í bítið á Stöð 2.Byggt á frétt á mbl.is
Lesa meira

Bæjarráð samþykkir tillögu að reglum fyrir úthlutun byggðakvóta

Á fundi bæjarráðs Siglufjarðar í dag var samþykkt tillaga að reglum um úthlutun byggðakvóta á Siglufirði. Tillagan verður lögð fyrir Sjávarútvegsráðuneytið og er undir ráðuneyti komið hvort hún verður samþykkt eða ekki.Tillagan er eftirfarandi:1. gr.Reglur þessar eru settar á grundvelli reglugerðar nr. 596/2003 um úthlutun á 1.500 þorskígildislestum til stuðnings sjávarbyggðum.2. gr.Í samræmi við 3. gr. reglugerðar nr. 596/2003 skal skipta veiðiheimildum milli einstakra fiskibáta sem skráðir eru í Siglufirði. Skal úthluta til einstakra aflamarks- og krókaaflamarksbáta hlutfallslega miðað við heildaraflamark þeirra í botnfiski, í þorskígildum reiknað, miðað við úthlutun til þeirra á grundvelli aflahlutdeilda í upphafi fiskveiðiárs 2003/2004. Við úthlutun skal heildaraflamark einstakra báta ekki aukast um meira en 100% miðað við úthlutun í upphafi fiskveiðiárs 2003/2004 og enginn bátur skal fá meira en 15 þorskígildistonn miðað við óslægðan fisk. 3. gr.Bátum sem úthlutað er byggðakvóta er skylt að leggja til þorskígildi að lágmarki til jafns við úthlutaðan byggðakvóta af eigin kvóta og skoðast móttekin umsókn sem staðfesting viðkomandi á því að það verði gert. Umsækjendum er heimilt að bjóða fram aukið hlutfall eigin kvóta en að ofan greinir og getur það haft áhrif á hlutfallslega úthlutun byggðakvótans til aukningar þrátt fyrir ákvæði 2. gr.4. gr.Afla samkvæmt 2. gr. og 3. gr. er skylt að landa til vinnslu í Siglufirði. Skal umsókn um byggðakvóta fylgja undirrituð staðfesting fiskverkunar um móttöku aflans til vinnslu. Öllum afla samkvæmt þessari grein skal aflað fyrir lok fiskveiðiársins.5. gr.Úthlutaður byggðakvóti er ekki framseljanlegur. Selji bátaeigendur eða leigja frá sér eigin kvóta á því fiskveiðiári sem þeir fengu úthlutað byggðakvóta skulu þeir skila úthlutuðum byggðakvóta í sambærilegu magni. Þeim kvóta sem þannig verður skilað inn skal þá úthluta að nýju.6. gr.Í lok fiskveiðiárs skulu þeir bátaeigendur sem fengu úthlutað byggðakvóta skila til sveitarfélagsins skýrslu um landaðan afla til vinnslu í því fiskverkunarfyrirtæki sem þeir tilgreindu sem samstarfsaðila og skal skýrslan staðfest af viðkomandi fiskverkun. Verði skýrslu ekki skilað eða ákvæðum reglna þessara um löndun afla til vinnslu í Siglufirði verði ekki fullnægt skulu viðkomandi bátar ekki eiga rétt á úthlutun byggðakvóta komi til nýrrar úthlutunar á nýju fiskveiðiári.Ef Sjávarútvegsráðuneyti staðfestir reglurnar verður auglýst eftir umsóknum innan skamms.
Lesa meira

Reynir Vilhjálmsson og Landslag ehf. nefnd til evrópskra verðlauna í landslagsar

Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt og teiknistofa hans, Landslag ehf., hafa verið nefnd til evrópskra verðlauna í landslagsarkitektúr fyrir hönnun fyrsta áfanga snjóflóðavarna á Siglufirði. Dómnefnd valdi 14 verkefni af alls 450, sem til álita komu, þar á meðal Siglufjarðarverkefnið. Verðlaunin kallast Barba Rosa-European Landscape Prize og eru nú veitt í þriðja sinn. Verðlaunaveitingin tengist sýningu og ráðstefnu á vegum arkitektasamtaka og arkitektaskóla í Barcelona og Katalóníu á Spáni. Tilnefndu verkefnin 14 verða sýnd í Barcelona 20. nóvember-11. desember nk. en ráðstefnan verður haldin dagana 27.–29. nóvember. Þar munu kynna höfundar kynna verk sín fyrir alþjóðlegri dómnefnd og nefndin tilkynnir að því loknu hvert þeirra hlýtur 1. verðlaun.Alþjóðleg viðurkenning af þessu tagi dregur athygli að því hvernig við Íslendingar bregðumst við óblíðum náttúruöflum með virðingu fyrir umhverfinu. Hún er vitanlega mikill heiður fyrir Landslag ehf. og íslenskan landslagsarkitektúr yfirleitt. Reyndar er sérstakt gleðilefni að þetta skuli gerast einmitt núna, á sama tíma og Landslag ehf. fagnar 40 ára samfelldum teiknistofurekstri Reynis Vilhjálmssonar. Snjóflóðagarðarnir á Siglufirði hafa vakið verulega athygli meðal fagfólks í hönnun erlendis. Þeir voru kynntir á hönnunarsýningu í Malmö árið 2002 fyrir milligöngu Form Ísland og um þá hefur verið fjallað í fagtímaritunum Landskab í Danmörku og Topos í Þýskalandi.Garðarnir, sem hér um ræðir, voru reistir neðan Jörundarskálar og Strengsgilja á Siglufirði á árunum 1998 og 1999. Þetta eru tveir leiðigarðar sem kallast Stóri-Boli og Litli-Boli. Nú er unnið að framkvæmd annars áfanga varnarvirkja á Siglufirði, þvergarða ofan byggðar.Framkvæmdasýsla ríkisins hafði umsjón með verkinu sem kostað er af Ofanflóðasjóði og Siglufjarðarbæ. Auk Reynis Vilhjálmssonar/Landslags komu Norges Geotekniske Institutt og Þorsteinn Jóhannesson, verkfræðingur á Siglufirði, að frumhönnun fyrsta áfanga varnarvirkjanna. Verkfræðistofan Hnit hf. annaðist verkhönnun garðanna. Línuhönnun hf. sá um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og eftirlit með framkvæmdum Héraðsverk annaðist byggingu garðanna en Bás á Siglufirði uppgræðslu þeirra.
Lesa meira

Útboð á viðbyggingu íþróttahúss - líkamsræktaraðstöðu.

Siglufjarðarkaupstaður hefur óskað eftir tilboðum í viðbyggingu íþróttahússins þar sem m.a. á að koma upp líkamsræktaraðstöðu. Tilboð verða opnuð þann 4. nóvember nk. og skal verkinu vera að fullu lokið 31. mars á næsta ári. Teikningar af fyrirhugaðri viðbyggingu og aðstöðu verða m.a. til sýnis í íþróttahúsinu.
Lesa meira

Íbúum á Siglufirði fjölgaði á tímabilinu júní - september

Íbúum á Siglufirði fjölgaði um 3 á tímabilinu júní til september, þ.e. ef aðfluttir voru þremur fleiri heldur en brottfluttir. Er þetta í fyrsta skipti síðan tekið var á móti flóttamönnum að fjölgun verður á þriggja mánaða tímabili sem Hagstofa miðar við. Á tímabilinu janúar til september voru brottfluttir hins vegar 6 fleiri heldur en aðfluttir þannig að fækkunin er 6 það sem af er árinu.
Lesa meira

Körfuknattleiksdeild Glóa í 2. deild.

Körfuknattleiksdeild Glóa mun í vetur taka þátt í Íslandsmótinu í 2.deild. Heimaleikir liðsins verða þó leiknir í Reykjavík en hægt er að fylgjast með gengi liðsins á síðunni www.fjarkinn.tk.
Lesa meira

10 ára afmæli Leikskála

Í tilefni 10 ára afmælis Leikskála var haldið hóf í húsakynnum leikskólans þriðjudagskvöldið 30. september. Þar voru starfsmenn og foreldrar leikskólans ásamt hópi fólks og/eða fulltrúum frá þeim stofnunum sem leikskólinn er í daglegu eða reglulegu samstarfi við. Í tilefni þessara tímamóta var gefin út skólanámskrá og formlega opnuð heimasíða leikskólans. Tengill síðunnar er www.siglo.is/leikskoliAmælisdagur leikskólans er hins vegar 29. ágúst og þann dag var haldin barnvæn veisla í leikskólanum með börnum og starfsfólki. Söngur, kökur, glens og gaman.
Lesa meira