Bæjarráð Siglufjarðar ályktar vegna frestunar framkvæmda við Héðinsfjarðargöng.

Bæjarráð Siglufjarðar samþykkti á fundi sínum í hádeginu í dag eftirfarandi ályktun vegna ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands á frestun framkvæmda við Héðinsfjarðargöng. “Bæjarráð Siglufjarðar lýsir yfir undrun og vonbrigðum yfir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um frestun framkvæmda við Héðinsfjarðargöng sem er reiðarslag fyrir íbúa Siglufjarðar og Eyjafjarðarsvæðisins alls. Þessi einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar gengur þvert á yfirlýsta stefnu hennar í byggðamálum, ekki síst í ljósi yfirlýsinga einstakra ráðherra og þingmanna undanfarnar vikur og mánuði. Héðinsfjarðargöngin hafa verið lengi í undirbúningi og ákvörðun um gerð þeirra tekin á grundvelli rannsókna um arðbærni og mikilvægi fyrir Eyjafjarðarsvæðið og landið allt. Rannsóknir sýna að jarðgöngin eru arðbær samgöngubót og mikilvæg forsenda eins megin markmiðs byggðastefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að styrkja byggð á mið-Norðurlandi sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Markmiðið með gerð Héðinsfjarðarganga er að stækka og efla eitt mikilvægasta atvinnu- og vaxtasvæði á landsbyggðinni þannig að það verði eftirsóknarverður valkostur til búsetu. Það hafa verið bundnar miklar væntingar við þessar framkvæmdir og vonbrigðin eru því gífurleg. Héðinsfjarðargöng eru forsenda fyrir auknu samstarfi og sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð. Þegar hafa verið tekin mikilvæg skref í auknu samstarfi á grundvelli þessara samgöngubóta og viðræður átt sér stað um enn frekara samstarf og sameiningu á svæðinu en með ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú hefur sú vinna verið sett í uppnám. Ekki er hægt að fallast á rök ríkisstjórnarinnar þess efnis að framkvæmdum verði að fresta vegna þenslu. Íbúar Eyjafjarðarsvæðisins hafa ekki orðið varir við umrædda þenslu og það er ekkert sem bendir til að efnahagslegt umhverfi þjóðarbúskapsins hafi breyst svo á tveimur mánuðum að það gefi tilefni til endurskoðunar og frestunar á þessum mikilvægu samgöngubótum. Slík endurskoðun hefði þá fremur átt að leiða til flýtingar verks en seinkunar. Bæjarráð Siglufjarðar fer fram á viðræður við forystumenn ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra og utanríkisráðherra, nú þegar og gerir jafnframt þær kröfur til þingmanna kjördæmisins að þeir vinni með sveitarstjórnarmönnum og íbúum Eyjafjarðarsvæðisins að því að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína.”Bæjarráð Ólafsfjarðar samþykkti á fundi sínum í dag eftirfarandi bókun:"Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um frestun framkvæmda við Héðinsfjarðargöng, sem tilkynnt var í gær er gríðarlegt áfall fyrir alla íbúa við Eyjafjörð. Þessi einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar gengur þvert á yfirlýsta stefnu hennar í byggðamálum og kemur bæjarráði Ólafsfjarðar í opna skjöldu, sér í lagi í ljósi yfirlýsinga einstaka ráðherra og þingmanna stjórnarflokkanna allt síðastliðið ár, að ekki sé talað um undanfarnar vikur og mánuði. Héðinsfjarðargöng hafa verið lengi í undirbúningi og var ákvörðun um gerð þeirra tekin á grundvelli rannsókna um arðbærni og mikilvægis þeirra fyrir Eyjafjarðarsvæðið og landið allt. Allar rannsóknir sýna að jarðgöngin eru arðbær samgöngubót og ein meginforsenda þess að það markmið byggðastefnu ríkisstjórnarinnar, að styrkja Mið-norðurland sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið náist. Markmiðið með gerð Héðinsfjarðarganga er að stækka og efla mikilvægasta atvinnu- og vaxtarsvæði á landsbyggðinni þannig að það verði eftirsóknarverður valkostur til búsetu. Miklar væntingar eru bundnar við þessa framkvæmd og vonbrigðin því gífurleg. Héðinsfjarðargöng eru mikilvæg forsenda fyrir auknu samstarfi og sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð. Sveitarstjórnarmenn í Eyjafirði hafa þegar tekið fyrstu skrefin í auknu samstarfi á grundvelli þessara samgöngubóta og hafa uppi áætlanir um enn frekara samstarf og sameiningu en með ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefur sú vinna verið sett í uppnám. Það var nógu erfitt fyrir íbúa Ólafsfjarðar að sætt a sig við fyrstu frestunina en þeir teystu stjórnvöldum og löguðu sig að breyttum aðstæðum. Af hverju skyldu þeir gera það aftur? Bæjarráð Ólafsfjarðar fellst ekki á þau rök ríkisstjórnarinnar að framkvæmdum verði að fresta nú vegna þenslu. Íbúar svæðisins hafa ekki orðið varir við umrædda þenslu og ekkert bendir til þess að efnahagslegt umhverfi í þjóðarbúskapnum hafi breyst svo á tveimur mánuðum að það gefi nú skyndilega tilefni til endurskoðunar og frestunar á þessari mikilvægu samgöngubót. Slík endurskoðun hefði þá fremur átt að leiða til flýtingar verksins en seinkunar. Bæjarráð Ólafsfjarðar treystir því Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnin láti ekki íbúa hér á Tröllaskaganum bera herkostnaðinn af framkvæmdum annars staðar á landinu. Bæjarráð Ólafsfjarðar fer fram á viðræður við forystumenn ríkisstjórnarinnar, forsætis- og utanríkisráðherra, nú þegar og gerir jafnframt þær kröfur til þingmanna kjördæmisins að þeir vinni með sveitarstjórnarmönnum og íbúum Eyjafjarðar að því að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína."